151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég endurtaki mig: Tortryggnin er til staðar, hún varð til í samfélaginu og hún er til af góðum ástæðum, bankar hrundu á Íslandi. Af hverju hrundu þeir ekki í Austurríki í sama hruni, af hverju hrundu þeir ekki í öllum öðrum löndum? Það er vegna þess að það var eitthvað að í kerfinu hérna. (BN: Þeir voru of stórir.)— Já, kannski var það málið en þá ætti regluverkið einmitt að vera betra. Ef bankarnir voru of stórir þá ættu reglurnar einmitt að vera betri. Þegar ég er að tala um ferli þá er ég að tala um að við sláum varnagla við svona atriði. Bara svo það sé sagt þá er þessi árátta, að láta eins og Ísland sé eitthvert sértilfelli og þurfi öðruvísi reglur en allir aðrir, rosalega þreytandi. En það að leita ekki að gögnum, að skoða ekki allan heiminn — það er fullt af löndum, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á, sem eiga fullt af bönkum.

Ég er ekki að tala um að við eigum bankana áfram heldur að salan fari fram með eðlilegum hætti. Það er það eina sem ég er að biðja um. Ef þetta er eitthvað sem þvælist fyrir hv. þingmanni þá get ég ekki hjálpað. Hvernig vill hann gera þetta? Vill hann bara koma þessu í verð? Ókei, gott og vel. Treystum á að það verði ekki fleiri efnahagsleg slys eins og flokkur hv. þingmanns hefur staðið fyrir aftur og aftur og aftur. Eigum við að treysta því? Ég er ekki alveg tilbúinn til þess. Ég er alveg tilbúinn til þess að selja bankann en gerum það rétt.