151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðuna. Ég ætla að segja hér í upphafi að þessi umræða er mikilvæg og hún er holl. Það segi ég út frá því hlutverki þingsins að gera athugasemdir við greinargerð ráðherra sem dregur málið saman. Það sem mér fannst athyglisvert í ræðu hv. þingmanns og tek undir er að við verðum að meta fórnarkostnaðinn og taka samanburð valkosta þegar við horfum til vaxtasparnaðar og þá mögulegrar væntrar arðsemi. En þá þyrftum við líka að skoða hver kostnaður slíkrar starfsemi, þ.e. banka, er af því að þjóna út frá fjármögnun, annars vegar eigin fé og hins vegar vöxtum. Það er líka hluti af þessu og vantar kannski inn í þessa umræðu. Ég tek undir að hugmyndafræði er sjaldnast svo einföld að hún leysi málin eða gefi einhlít svör. Það þarf alltaf að skoða það í einhverju samhengi.

Það sem mér fannst athyglisverðast í ræðu hv. þingmanns er umræðan um lágvaxtaumhverfi eins og það er núna í samanburði okkar. Ég gef mér að hv. þingmaður telji að það sé æskilegt, æskilegt fyrir ríkissjóð við þessar kringumstæður og æskilegt fyrir almenning. Þá spyr ég: Skiptir þá ekki máli hvernig við fjármögnum ríkissjóð? Möguleikarnir eru þessir: Innlend lántaka með skuldabréfaútgáfu sem yrði meiri ef við losum ekki eignarhluta, sem er þá valmöguleiki tvö, sala eins og við erum að ræða hér, og svo erlend lántaka sem er á lægri vöxtum en býðst innan lands. Skiptir það ekki einmitt máli til að viðhalda lágvaxtaumhverfinu, ekki síður með tilliti til almennings en ríkissjóðs sem lækkar þá væntanlega skuldir og dregur úr vaxtabyrði?