151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir málefnalegt og gott andsvar og góða spurningu. Þetta er einmitt það sem við ættum að vera að ræða um hér. Ef við horfum á möguleikana hefur erlend lántaka vissulega lægri vexti í augnablikinu, sem gerir hana álitlega. Hún hefur töluverða gengisáhættu í för með sér þó svo að í augnablikinu sé íslenska krónan raunar tiltölulega veik, sem þýðir að erlend lántaka er jafnvel æskilegri nú en oft áður. Við höfum einhverjar væntingar, og meiri væntingar en minni, held ég, til þess að krónan eigi eftir að styrkjast á næstu árum, sem myndi gera þær skuldir ódýrari.

Hvað varðar gengisáhættu, ef maður myndi vega hana og meta, er erlend lántaka kannski skynsamleg í augnablikinu. En ég er alltaf mjög varfærinn þegar kemur að erlendri lántöku vegna þess að við stjórnum ekki þeirri mynt, en vissulega eru betri vextir þar.

Innlend lántaka. Þar eru í augnablikinu sögulega lágir vextir og þar er tækifæri. Við ættum kannski að einbeita okkur að því, sérstaklega þegar við erum að horfa á eitthvað eins og — nú man ég ekki númerið en við erum með eitt innlent lán á 8% vöxtum. Það er tilefni til að reyna að endurfjármagna það í augnablikinu vegna þess að vaxtaumhverfið er betra og við gætum minnkað vaxtabyrði ríkissjóðs töluvert mikið. Það er skammgóður vermir að hlaupa í það að selja eignir. Það virkar vissulega en er ekki endilega það sem ætti að vera í fyrsta sæti hjá okkur, sérstaklega ekki þegar við höfum þessa tvo nokkuð góðu valkosti í augnablikinu.

Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað eigum við að reyna að halda vaxtabyrði ríkissjóðs lágri. En höfum líka í huga að ríkisskuldir eru einkasparnaður (Forseti hringir.) og oft getur verið aukinn drifkraftur fyrir hagkerfið (Forseti hringir.) að ríkið skuldi meiri pening.