151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég talaði um lánshæfismatið áðan var ég að tala um lánshæfismat bankans og varð þá hugsað til þeirra fjölmörgu þátta sem haft gætu áhrif á söluverð bankans. Þegar maður er í svona söluferli vill maður væntanlega fá eins mikið fyrir bankann og hægt er. Þá er auðvitað enn þá betra að hann sé eins stöndugur og hægt er. Og hann er mjög stöndugur, því er ekki að leyna. En það eru veikleikar á nokkrum stöðum og við höfum farið nokkuð vel yfir það. Auðvitað getur það haft jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs að vera t.d. með lægra skuldahlutfall og lægri vaxtabyrði. Klárlega. En ég held að við ættum ekki að gera þau mistök að horfa fram hjá því að það er ekki stærsti þátturinn. Þegar maður horfir á lánshæfismat ríkja er það að miklu leyti byggt á því hversu mikil framleiðni er og hversu mikill fjölbreytileiki er í hagkerfinu. Þegar við horfum t.d. á einn af þáttunum sem verðmat Íslandsbanka byggir á — það er mismunandi eftir því hvern maður spyr, en 10% lánasafnsins er í frystingu, 20% samkvæmt sumum — þá eru einmitt 11% af lánasafninu tengd ferðaþjónustu. Ég held að það sé veikleiki, ekki bara í lánasafni Íslandsbanka heldur í öllu hagkerfi Íslands að við séum með svo fáar stórar stoðir. Ein leið til að gera Íslandsbanka álitlegri sem söluvöru er einmitt að gera hagkerfi Íslands fjölbreyttara. Ef við einbeittum okkur að því hér á Alþingi væri það mjög til góðs. Hv. þm. Brynjar Níelsson talaði áðan um að ég hunsaði alla sérfræðinga, en það eru margir hagfræðingar sem hafa talað gegn þessu og Samkeppniseftirlitið hefur varað við ýmsum þáttum. (Forseti hringir.) Auðvitað þurfum við að horfa á þetta heildstætt (Forseti hringir.) og hugsa með okkur að þegar við (Forseti hringir.) erum að tala um banka sem hefur 25–40% af markaðshlutdeild (Forseti hringir.) eru það hagfræðilegar stærðir (Forseti hringir.) og hefur áhrif á hagkerfi Íslands í heild.