151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum áformaða sölumeðferð á eignarhlutum í Íslandsbanka. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er holl og góð og hún er sérstaklega góð með tilliti til þess hlutverks sem þingið hefur á þessum tímapunkti og er í höndum tveggja þingnefnda, hv. efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar; að gera athugasemdir við greinargerð ráðherra sem dregur málið saman. Ég vil jafnframt þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir skýrslu hans og innlegg í málið. Ég held að samtal þingmanna við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem heldur á málinu sé mjög mikilvægt.

Fram hefur komið í umræðunni að þetta er í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og það eru einmitt lögin sem kveða á um að greinargerð ráðherra sé lögð hér til umfjöllunar. Auk þess er Seðlabankanum ætlað að gera athugasemdir við tiltekin atriði sem snúa að jafnræði bjóðenda, líklegum áhrifum sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í þessum sömu lögum, nr. 155/2012, kemur jafnframt fram að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi heimild til að selja eignarhluta ríkisins en til þess þurfi einnig heimild í fjárlögum og tillögur Bankasýslunnar þar um þurfi að liggja fyrir. Það er því frágengið í lögum og öllum formsatriðum er fylgt um heimild ráðherra til sölu og sjálfa söluheimildina er að finna í 6. gr. fjárlaga, lið 5.1, um að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka.

Þó að þetta sé kannski ekki afgerandi þáttur, virðulegi forseti, í því hvort skynsamlegt sé að selja eignarhluti ríkisins í bankanum, þann fjórðung sem áformað er eða er viðmiðið í þetta skiptið, er það staðreynd og umhugsunarefni að eignarhaldið er afleiðing atburðarásar og viðbragða við efnahagshruninu en ekki ákvörðun vegna meðvitaðrar stefnu um að skynsamlegt sé að ríkið eigi jafn víðtækan hlut í fyrirtækjum á fjármálamarkaði sem raunin er, einnig í öllum samanburði á slíku eignarhaldi hjá öðrum þjóðum í Evrópu þó að þær eigi vissulega, eins og komið hefur fram í umræðunni, hluti í fjármálafyrirtækjum.

Í því samhengi er vert að hafa í huga, þegar hér er rætt um að farið sé í þessa sölumeðferð á hlaupum og skömmu fyrir kosningar, að þetta liggur fyrir í gildandi lögum. Þetta kemur líka fram í eigendastefnu bankans og er jafnframt í stjórnarsáttmála og var fylgt eftir í hvítbók. Mér finnst við verða að leggja það þannig fram, ekki síst þar sem traust á fjármálakerfinu hefur stigið mjög hægt upp á við og skyldi engan undra miðað við það áfall sem varð hér fyrir rúmum áratug. Verið er að reyna að vanda ferlið og verið að taka mjög varfærin skref. Síðan er það hlutverk okkar að draga fram öll sjónarmið um hvenær skynsamlegt er að selja og hvernig.

Mér finnst á umræðunni hér, virðulegi forseti, að kannski sé helst fundið að tímasetningunni við að fara í þessa skráningu. Ég held að sú leið sem er valin skipti líka máli sem og það sem á undan er gengið. Þá er vert að rifja upp hvað hefur gerst á liðnum rúmum áratug frá falli bankanna í hagkerfinu, rekstrarumhverfinu og regluverkinu og rifja upp þær ríku kröfur sem við gerum til starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði í dag. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu.

Svo er það þessi spurning, sem er kannski stóra spurningin en ekki er hægt að svara henni einhlítt, hvort ríkið eigi að eiga banka yfir höfuð. Það leiðir hugann að því hvert hlutverk slíks kerfis er og stjórnvalda í því samhengi. Við viljum öll sjá þétt regluverk. Við höfum brennt okkur á því að þar voru göt. Við viljum sjá sanngjarnt, skilvirkt rekstrarumhverfi sem skapar forsendur fyrir fjármálakerfi sem uppfyllir þær kröfur sem við gerum til þeirra sem starfa á þeim markaði og mjög margt hefur verið gert, virðulegi forseti. Traust í þeim efnum kemur upp í hugann. Við viljum að það ríki traust og við viljum að fjármálakerfið þjóni samfélaginu með hagkvæmni og ábyrgð að leiðarljósi. Við viljum öflugt eftirlit með kerfinu til að minnka verulega líkurnar á áfalli. Þau orð að stórir viðskiptabankar séu of stórir til að falla fela í sér að það bitnar á öllu samfélaginu.

Að draga úr eignarhaldinu er í raun og veru það markmið og áform sem endurspeglast í stefnu stjórnvalda í stjórnarsáttmálanum frá árinu 2017. Eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu. Það er óumdeilt og á mælikvarða landsframleiðslu er það líka mjög hátt og hærra að ég held en í öllum öðrum Evrópulöndum og einnig ef við tökum það sem hlutfall af opinberum skuldum, það er í kringum 37%. Við getum hugsað okkur það að ef við losuðum allt þá gætum við náð skuldunum niður um 37%. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar við horfum til fórnarkostnaðarins við að binda alla þessa fjármuni í kerfinu og hvað það er sem réttlætir það raunverulega. Er það bara tortryggnin ein og sér? Þá minni ég á að við erum einvörðungu að skrá bankann og viðmiðið er 25% hlutur. Við eigum eftir sem áður 75% í Íslandsbanka og allan Landsbankann þannig að umræðan um samfélagsbanka er svo langt í frá farin frá okkur. Þvert á móti á hún algjörlega eftir að fara fram, sem og umræðan um skilgreininguna á slíkum banka. En við eigum svo sannarlega að taka hana. Það er í stefnu míns flokks, Framsóknarflokksins, að við séum með einn banka sem sinni samfélagslegu hlutverki.

Í stjórnarsáttmálanum er lagt til að draga úr eignarhaldinu og boðað að ríkissjóður verði leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun, sem er Landsbankinn. Það liggur alveg skýrt fyrir. Mér finnst umræðan oft eins og við séum bara nánast að selja allt í einu vetfangi og á harðahlaupum. Það er bara ekki svo. Það ferli sem er fram undan gleymist líka, sem er nokkuð mikið næstu sex mánuði. Þar munu koma fram mjög mikilsverðar upplýsingar og svör við spurningum sem við erum að reyna að svara í dag, sem er erfitt að sjá fyrir, um það hvernig markaðurinn bregst við og hvað hann er tilbúinn til að borga og hverjir það eru. Þeir aðilar sæta regluverki um hæfni til að eiga banka og þar skiptir reynsla og þekking mjög miklu máli eins og komið hefur fram og er oft dregið fram í umræðunni um að æskilegt væri að erlendur banki með reynslu og þekkingu af slíkum rekstri kæmi inn á markaðinn. Þá erum við kannski að horfa til samkeppnislegra þátta í umhverfinu.

Til að draga fram skynsamleg rök og ekki síður leggja grundvöll að umræðu um þessar fyrirætlanir var lagt upp með í stjórnarsáttmála að leggja fram hvítbók. Hún kom út 2018 og var tekin til umræðu í þinginu. Hún nýtist afar vel núna. Þar er rætt um þessar mikilvægu stoðir, regluverkið og þjónustuhlutverkið og hversu mikilvægt sé að eignarhaldið sé traust. Umgjörð regluverksins og eftirlitsins miði að því að tryggja heilbrigt eignarhald með kröfum til virkra eigenda og takmörkunum á lánum til eigenda og tengdra aðila. Og kannski má ræða um forsendur, virðulegi forseti, en um leið verðum við að fjalla um rökin fyrir því að draga úr víðtæku eignarhaldi ríkisins. Þar verðum við kannski helst að meta áhættuna af svo víðtæku eignarhaldi, fórnarkostnaðinn af fjárbindingunni og auðvitað, eins og fram hefur komið, samkeppnissjónarmið.

Hægt er að benda á fjölmargt sem hefur verið gert fyrr og nú, eins og ég kom að, til að treysta regluverkið, efla eftirlitið og bæta rekstrarumhverfið. Tvennt sem dregið er fram í hvítbókinni hefur verið til umræðu í dag, það er Íslandsálagið, smæðin, sértækir skattar og háar eiginfjárkröfur. Það dregur úr skilvirkni og hagkvæmni, það segir sig sjálft, en það eykur viðnámsþrótt og dregur úr áhættu á móti. Við þurfum að vega það og meta. Þrátt fyrir hið gífurlega áfall sem fylgir efnahagssveiflunni í þessum faraldri og dýpstu kreppu í 100 ár, eins og margoft er sagt í þessu samhengi, standa bankarnir mjög vel. Þá eru eiginfjárkröfurnar og regluverkið í raun og veru álagspróf á það allt. Það er vel og ætti að auka traust.

Söluáformin núna eru í samræmi við upplegg hæstv. ríkisstjórnar og hafa legið fyrir í nokkurn tíma. Hér er ekkert verið að hlaupa til. Auðvitað verða alltaf einhver álitamál um æskilegt eignarhald, hversu víðtækt það á að vera eða getur verið og um tímasetninguna. Það erum við einmitt að ræða hér og það er vel. Ég held að sem flest sjónarmið, ekki bara í þessari umræðu heldur í athugasemdum við greinargerð, þurfi að koma fram. Síðastliðna viku hafa nefndir þingsins, hv. fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, fengið á sinn fund aðila sem þekkja vel til markaðarins og regluverksins og þeirra þátta sem skipta máli við þá umræðu, og þeir hafa ekki bara dýpkað umræðuna heldur veitt upplýsingar sem eru afar gagnlegar og nýtast við að gera mikilvægar athugasemdir við greinargerðina og draga fram öll sjónarmið í þessu.

Í greinargerð hæstv. ráðherra er fjallað um markmiðin. Ráðherra fór reyndar ekki yfir þau og taldi það ekki nauðsynlegt og ég hef skilning á því að vera ekki endilega að lesa þau upp en fyrir okkur þingmenn sem erum í því verkefni að gera athugasemdir við greinargerðina er mikilvægt að við fjöllum um þau markmið sem grundvalla þá vegferð að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut. Það er mikilvægt að draga úr áhættu ríkisins. Það er mikilvægt fyrir alla. Eitt markmiðið er að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði og hvernig það er gert og hvort þessi leið geti leitt til þess að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum. Ég held að það blasi við. Það blasir við að búið er að endurheimta, við það að við tókum við bönkunum, þann afslátt sem var á eignunum og nú er þetta komið nær raunarðsemi þannig að ekki er að vænta umframarðgreiðslna. Annað markmið er að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og vonandi verður þátttakan almenn og fjölbreytt og svo held ég að það sé óumdeilt að þetta dýpkar hlutabréfamarkað (Forseti hringir.) og eykur fjárfestingarmöguleika. (Forseti hringir.) Að síðustu, afsakið virðulegur forseti, er markmiðið ekki síst að minnka skuldsetningu (Forseti hringir.) og auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga og að draga úr vaxtabyrði.