151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, tímasetningin, við erum kannski ekki sammála um hana. Ég held sömuleiðis að þessi umræða þurfi að þróast aðeins meira í samfélaginu. Ég verð ekki var við þann þrýsting að við þurfum að drífa okkur að selja þennan hlut. Ég held að þjóðin sé ekki að kalla eftir því núna. En mig langar að spyrja út í annað atriði, ekki tímann heldur aðeins varðandi eigið fé. Eigið fé er í rauninni skuld bankans við eigendur, það er hægt að skilgreina það þannig. Það hefur komið fram að umfram eigið fé er allt að rúmum 40 milljörðum. Samkvæmt því geta eigendur, núverandi og verðandi, tappað af þessu eigin fé. Ég er ekki að segja að þeir eigi að fara alveg niður í lágmarkið en þeir geta minnkað eigið fé með því að draga það til sín í formi arðs. Ég velti fyrir mér af hverju sú vegferð er ekki frekar farin ef ríkið vantar þessa 20–30 milljarða sem stendur til að reyna að fá fyrir þennan hlut sem á að selja í fyrstu lotu. Hvernig stendur á því að hv. þingmenn og ríkisstjórnin eru ekki til í að skoða að ríkið taki þessa 20–30 milljarða til sín með lækkun eigin fjár í bankanum? Þá væri fjárþörfinni mætt sem ríkið er að reyna að mæta en við ættum bankann samt áfram. Þá ættum við 100% í bankanum. Af hverju er þessi leið ekki skoðuð aðeins ítarlegar? Við ræddum þetta stuttlega í fjárlaganefnd. Ég minni á í því samhengi að Íslandsbanki hefur á síðustu fimm árum greitt til ríkissjóðs 70 milljarða. Ég veit að það er engin vísbending um framtíðararðgreiðslur en 70 milljarðar, hugsið ykkur, frá Íslandsbanka í arðgreiðslur til ríkissjóðs er álíka mikið og við setjum í Landspítalann á hverju einasta ári. Landsbankinn er búinn að greiða 132 milljarða í arð til ríkissjóðs. Arðgreiðslur frá þessum tveimur viðskiptabönkum hafa svo sannarlega komið að góðum notum og farið inn í ríkissjóð. Ég velti fyrir mér af hverju við förum ekki þá leið núna, a.m.k. í bili, (Forseti hringir.) og svo getum við séð til með að einkavæða bankana að hluta til eða öllu leyti þegar aðstæður eru hagfelldar.