151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sagði að það skipti máli hvaða leið er valin. Það er alveg hárrétt. Hins vegar erum við ekki með neinar greiningar á því hvaða leiðir eru í boði og það skiptir líka máli. Ef það skiptir í alvörunni máli hvaða leið er valin þurfum við að sjá valkostina. Hverjar voru hinar leiðirnar og af hverju eru þær ekki eins góðar? Það er ekki nóg að segja að þetta sé besta leiðin, það verður að sýna það. Það er gagnsæi. Það er ekki gagnsæi að segja að svona ferli, eins og söluferlið sem var sett upp, sé gagnsætt gagnvart þeim sem vilja kaupa heldur verða stjórnvöld að vera gagnsæ í þeim rökstuðningi sem þau leggja fram fyrir því að þetta sé sú leið sem kemur best út fyrir notkun á almannafé. Það er mjög auðvelt að fara í gegnum öll þau skjöl sem við höfum fengið og segja að sá rökstuðningur sé ekki til. Okkur er sagt að þetta sé besta leiðin en það er ekki sýnt. Það er algjör grundvallarspurning sem við hér á þingi þurfum að svara til að geta kvittað upp á greinargerð ráðherra um að þetta sé gott og gagnsætt ferli, gott fyrir almenning, góð meðhöndlun á opinberum eignum. Ég spyr því bara mjög einfaldlega: Af hverju eru okkur settar svona tæpar tímaskorður til að skoða nákvæmlega þetta? (Forseti hringir.) Förum við eitthvað áfram í þessu máli fyrr en við erum búin að fá rökstuðning fyrir því að þetta sé besta leiðin, ekki bara í orðum heldur í sýnidæmi?