151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er að tala um skyldu stjórnvalda til að sinna því hlutverki sínu að rökstyðja ákvarðanir sínar. Nýlegt dæmi um hvernig það mistókst var t.d. Landsréttarmálið. Þar var ekki nægilega góður rökstuðningur. Ég geri nákvæmlega sömu kröfur í þessu máli, að það sé rökstuðningur sem er einfaldur, eitthvert sýnidæmi. Við fórum í gegnum þetta í fjárlaganefndinni þar sem við spurðum einfaldlega: Hvað erum við að fá mikið út úr sölunni? Hvaða áhrif hefur það á lánastöðu ríkisins og vaxtakostnað miðað við þær arðgreiðslur sem koma og kostnað við eigið fé? Það er hægt að setja þetta upp í einfalt dæmi: Þessi upphæð hérna megin og hin upphæðin hinum megin. Ef við sjáum hvor er hærri veljum við væntanlega þá leið. En það eru margar leiðir sem þarf að meta nákvæmlega með sömu forsendum. Og já, það er erfitt, eins og kom fram í máli hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, það er erfitt að sjá hvað kemur út af því að allt er að breytast á mörkuðum o.s.frv. En það er verið að leggja til þessa leið þótt það sé að sjálfsögðu líka erfitt að sjá hvað kemur út úr henni. Ég er bara að biðja um að hinir valmöguleikarnir séu meðhöndlaðir á sama hátt og þessi valmöguleiki ætti að vera meðhöndlaður. Það er ekki verið að sýna okkur að við spörum, eins og hefur komið fram í máli hv. þm. Smára McCarthy, kannski 100–700 milljónir á ári í vaxtakostnað á móti arðgreiðslum ef við förum þá leið að selja. Ef það er niðurstaðan ætti það að vera tiltölulega auðvelt val þótt það séu ekki háar upphæðir. Upphæðirnar gætu verið öðruvísi ef við veljum t.d. hagræðingu og sölu eða hagræðingu og arðgreiðslur. Það eru aðrir valmöguleikar og stjórnvöld eru ekki að sinna þeirri skyldu, sem þau eiga að gera, að sýna okkur gagnsæið, að þetta sé besta leiðin.