151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Lái mér hver sem vill, en ég verð svolítið rugluð þegar ég hlusta á stjórnarþingmenn ræða um þessi söluáform. Ég vil biðja hv. þingmann um að útskýra fyrir mér og segja mér hvort hann sé sammála því sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði fyrr í þessari umræðu, að hann vildi haga hlutum þannig að hver og einn kaupandi að þessum hlut sem færi út í þessu skrefi, mætti ekki eiga meira en 2–3% í bankanum. Er þetta eitthvað sem er samkomulag um meðal stjórnarmeirihlutans eða er þetta bara eitthvað sem hv. þingmaður, fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd, setur fram sem sína persónulegu skoðun?

Síðan tala stjórnarliðar um að þetta séu lítil skref, en Kauphöllin setur lágmark um 25% hlut og það er ekkert hámark. Það kemur ekkert hámark fram í gögnunum sem við erum að vinna með hér. Meira að segja er sagt að ef við eigum að vonast til að fá erlendan aðila til að kaupa hlut, sem væri æskilegt, einkum ef hann kann eitthvað að reka banka, þurfi að vera að minnsta kosti 51% í boði. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara yfir þetta.