151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ekki hægt að setja allt upp í excel en það er hægt að reyna. Það er hægt að gera sviðsmyndagreiningar og kostnaðar- og ábatagreiningar og þess háttar. Það er ákveðin krafa um það í lögum um opinber fjármál. Þau rök koma rosalega oft, mér finnst það mjög kostulegt, að alltaf er sagt: Það er ekki hægt að setja allt upp í excel. En samt er hægt að ákveða að gera þetta. Samt eru engin excel-skjöl fyrir þeirri ákvörðun að fara þessa leið. Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa, nota sömu rök báðum megin. Maður verður að skoða nákvæmlega þau rök sem notuð eru í gagnrýninni á þá lausn sem verið er að leggja til. Hinn gagnrýnispunktur minn varðandi allt þetta ferli er tímafresturinn, tímaskorturinn. Af hverju erum við að gera þetta á svo miklum hraða? Sú kvörtun snýr að málsmeðferð Alþingis, ekki nauðsynlega að öllu því ferli sem búið er að vera síðan 2013 og er kannski að klárast núna, snýr að því að þingið fær greinargerð frá ráðherra með mánaðar fyrirvara: Klárið þetta fyrir 20. janúar, takk kærlega fyrir. Það er þrátt fyrir að ráðuneytið og ráðherra hafi nákvæmlega ekkert boðvald yfir Alþingi til að klára mál fyrir einhvern tímafrest. Alþingi klárar sitt mál, skoðar það á sínum tíma með sínum kröfum um gæði vinnunnar sem á að fara fram og liggur undir. Tortryggnin gagnvart því að selja banka er nógu mikil þannig að við skulum ekki reyna að bæta tortryggilegum hlutum við það ferli. Það er tortryggilegt þegar ráðherra kemur og segir: Drífið þetta í gegn. Við ættum að sjálfsögðu að segja: Nei, við þurfum að gera þetta á ábyrgan hátt og við þurfum að taka okkur þann tíma sem þarf til að klára þetta. Það er bara sagt: 20. janúar, mánuður, gjörið svo vel, út með þetta. Búið mál. Það er búið að benda á að það vantar gögn eins og ég hef talað um hérna. Það á alla vega að reyna að útvega þau, það er númer eitt að reyna að útvega þau.