151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við þingmenn þurfum að gera okkur grein fyrir hlutdrægni okkar og hvar hún liggur. Það er tiltölulega augljóst á öllum hugmyndafræðilegum grunni að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans eru hlutdrægir gagnvart því að selja ríkiseigur. Það býr til ákveðnar kröfur til fólks um að líta sérstaklega gagnrýnið á þau gögn, betur en önnur, til að fullvissa sig um að sú hlutdrægni sem viðkomandi flokkar, aðrir líka, búa við þvælist ekki fyrir í rökum málsins.

Nú hafa dálítið áhugaverðar athugasemdir komið fram í hv. fjárlaganefnd. Þar ber helst að nefna umsögn Samkeppniseftirlitsins. Þar segir einfaldlega að ekki hafi verið gerð greining á samkeppnisáhrifum þess að selja þennan hlut. Það er einfalt atriði sem stjórnvöld þurfa að sinna þegar þau taka ákvarðanir um hvað eigi að gera með eigur almennings, með almannafé. Það var ekki gert. Farið er yfir ýmis atriði í hvítbókinni um aðra möguleika á losun á eignarhaldi. En ýmislegt hefur gerst síðan hvítbókin kom út í desember 2018. Við erum í miðri efnahagskreppu, heimsfaraldri, sem hlýtur að hafa einhver áhrif. Þrátt fyrir stöðu hlutabréfamarkaðarins þarf væntanlega að endurmeta þá stöðu á einhvern hátt og í þeim greiningum eru atriði sem mér finnst ekki vera nægilega nákvæm, mér finnst þau vera meira skoðanir, vissulega á ákveðnum rökum byggðar, en ekki nægilega nákvæmar útfærslur á því hvort ein leið sé betri en önnur. Þá geri ég sérstaklega kröfu til þeirrar leiðar sem valin er hérna. Hún lítur ágætlega út og er gagnsæ gagnvart þeim kaupendum sem munu koma að ferlinu í framhaldinu. En hún er ekki gagnsæ gagnvart þingi og þjóð hvað varðar ákvörðun stjórnvalda um að velja þessa leið umfram aðra.

Hraðinn er dálítið svakalegur. Þá á ég ekki við allt það ferli sem liggur að baki því að taka ákvörðun um það hvort selja eigi Íslandsbanka eða ekki. Til þess hefur verið heimild í fjárlögum í langan tíma þannig að það ferli hefur gengið þokkalega vel fyrir sig. Núna þegar búið er að taka ákvörðun um að selja þá tekur við ákveðinn hraði sem við ættum að draga úr til þess einfaldlega að gera hlutina vel. Það kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis um einkavæðingu bankanna og hrunið að þar var ákveðið ferli til staðar en svo var ekkert endilega farið eftir því og því var breytt dálítið eftir á. Við sjáum hér skort á þeim forsendum sem stjórnvöld munu horfa til þegar ákvarðanir verða teknar í framhaldinu. Ferlið sem er lagt upp með, söluferlið sem slíkt, er fínt og lítur vel út en aðkoma ráðherra að öllu því ferli er óljós. Hver eru þau viðmið sem stjórnvöld taka tillit til þegar á að taka ákvarðanir um næsta skref í ferlinu, þegar að lokum á að ákveða hvort salan eigi að fara fram eða ekki? Þar hef ég aftur áhyggjur af hlutdrægninni. Hæstv. fjármálaráðherra er í Sjálfstæðisflokknum sem er hlutdrægur gagnvart því að selja ríkiseigur. Þá pælir maður óhjákvæmilega í því hvort slíkur aðili sé bestur til að vera á bremsunni upp á það hvort salan sem slík sé þannig að vel sé farið með almannafé.

Ég tók dæmi hérna fyrir þó nokkru síðan: 2009–2013 var sótt um aðild að Evrópusambandinu og í kjölfarið á því, á kjörtímabilinu 2013–2016, sat stjórn sem vildi ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu heldur einfaldlega slaufa umsókninni með einhverjum bréfaskriftum. Þingsályktunin um umsóknina var enn til staðar og stjórnvöldum ber að fara eftir þeim þingsályktunum sem eru í gildi, ellegar bara leggja fram nýja þingsályktun um að afnema gildandi þingsályktun, sem var ekki gert. Í staðinn fyrir að afnema þingsályktunina var einfaldlega ákveðið að hunsa hana. Það er mjög undarleg stjórnsýsla að gera það. Ef stjórnvöld hefðu ákveðið að halda samt áfram með umsóknarferlið af einhverjum ástæðum hefði verið mjög slæm hugmynd að senda einhvern sem væri á móti því að ganga í Evrópusambandið í samningaviðræðurnar því að sá aðili hefði hag af því að fá lélega samninga sem þing og þjóð myndi hafna frekar en ef um góða samninga væri að ræða, sem einhverra hluta vegna væru miklu betri en allir bjuggust við og allir gætu tekið upplýsta ákvörðun um og sagt: Þetta er bara ansi fínt, gerum þetta.

Þessa hlutdrægni þarf að hafa í huga þegar verið er að taka ákvarðanir eins og þessar. Er viðkomandi á einhvern hátt hlutdrægur sem gæti haft áhrif á það hvort ferlið og niðurstaða þess verður góð eða slæm? Það er einfaldlega það sem við köllum eftir, að stjórnvöld sinni þeirri skyldu að koma með gagnsæið sín megin. Gagnsæið í þessu söluferli er fínt. Gagnsæi ríkisstjórnarinnar, stjórnvalda, er ekki neitt. Því er algerlega sleppt að útskýra af hverju samruni er slæm hugmynd miðað við þann valkost að selja eignarhlut eða aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og selja þá kannski fjárfestingarhlutann í staðinn fyrir að selja 25% í öllum bankanum eða, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson minntist á, að taka kannski til sín eitthvert eigið fé og endurhagræða í rekstrinum.

Stjórnvöld koma ekki með rökstuðninginn fyrir því að hinar leiðirnar sem eru í boði séu verri en þessi leið. Þann rökstuðning vantar. Það er einfaldlega ekki boðlegt þegar allt kemur til alls. Ég myndi halda að það væri ekki endilega einu sinni erfitt að koma með þann rökstuðning en hann verður að vera til. Við þekkjum það og allir ættu að þekkja það úr Landsréttarmálinu hvernig rökstuðningurinn sem ráðherra kom þar með stóðst ekki kröfur um góða stjórnsýslu og hvaða afleiðingar það hafði. Þetta er ekkert öðruvísi, ráðherra og stjórnvöld þurfa að koma með góðan rökstuðning fyrir ákvörðunum sínum. Hann skortir. Þannig kem ég alla vega, og við Píratar almennt séð, að málum. Eru málin nægilega vel rökstudd? Þegar þau eru það og hægt er að skoða rökstuðninginn þá er í alvörunni hægt að tala um hvort hugmyndin sé á einn eða annan veg góð eða ekki og þá koma til ýmsar pólitískar hugmyndir um það hvort ákveðið atriði er verðmætara en annað. Þar á bak við getur verið gildismat sem hefur mismunandi pólitískan stuðning, sem er ekki svo auðvelt að setja í excel-skjal. En svarið við gagnrýninni sem við komum með er að ekki sé hægt að setja allt í excel-skjal. Á móti er ekki einu sinni reynt að setja það ferli sem var ákveðið í excel-skjal. Af hverju ætti ég þá að líta á þær tillögur sem koma hérna fram öðruvísi en ágiskun, byggða á ákveðinni hugmyndafræði, hlutdrægni, frekar en upplýstri umræðu um raunverulega kosti og galla, alveg niður í krónur og aura? Ég get alveg sett upp dæmi þar sem arðgreiðslurnar úr bönkunum eru skoðaðar. Það er það sem við erum að fá fyrir þá fjárfestingu að vera eigendur, á móti því að taka þá fjárfestingu til baka og fjárfesta í einhverju öðru eða lækka skuldir eða eitthvað því um líkt. Þá sé ég hagnaðinn í því á móti og þá veljum við náttúrlega bestu leiðina við notkun á opinberu fé.

Ég vil hafa það alveg skýrt að það er ekki góð hugmynd fyrir ríkið að eiga tvo banka, að sjálfsögðu ekki. Til hvers ætti ríkið eiginlega vera í samkeppni við sjálft sig hvað það varðar? Að lokum erum við auðvitað að miða að því að ríkið eigi einn banka sem er líklega bara viðskiptabanki en ekki fjárfestingarbanki, og veitir ákveðna grunnþjónustu. Hvenær og hvernig við komumst þangað hlýtur alltaf að vera spurningin og það verður alltaf að rökstyðja með gögnum.