151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Íslandsbanki er verðmæt eign í eigu almennings og verðmat bankans er á bilinu 130–160 milljarðar kr. Hann varð eign ríkissjóðs fyrir tilstuðlan stöðugleikaframlaga föllnu bankanna eftir efnahagshrunið 2008 og það var ekki síst fyrir einbeitni og festu fyrrum forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og ríkisstjórnar hans sem bankinn varð almenningseign og mikilvægt skref var stigið í því að koma þjóðinni út úr hruninu. Ríkisstjórnin áformar nú að selja um 25% hlut hið minnsta á næstu mánuðum og áætla stjórnvöld að fyrir hann fáist 35–40 milljarðar kr. Söluna ber nokkuð brátt að í miðri efnahagslegri óvissu faraldursins. Stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum, virðist mikið í mun að selja fyrir kosningar og ætla mætti, það lítur þannig út alla vega, að salan sé þeim mikilvægari heldur en að fá hæsta verð.

Eignarhald ríkisins á tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins er ekki heppilegt. Það getur haft neikvæð áhrif að ríkið eigi svo stóran hlut og því fylgir áhætta. Það er áhætta fyrir ríkissjóð að binda svo mikið fé í þessum bönkum til lengri tíma. Opinbert eignarhald á fjármálafyrirtækjum er talsvert minna annars staðar á Norðurlöndum. En það sem einkennir íslenskan fjármálamarkað er að hann er fákeppnismarkaður og bankarnir eru hver öðrum líkir. Það er hagur almennings að breyta því. Aukin samkeppni á bankamarkaði stuðlar að lægri vöxtum og lægri þjónustugjöldum sem eru verulega há í dag og auk þess hefur aukin samkeppni í för með sér nýjungar sem skipta líka máli og auðvelda fólki að eiga bankaviðskipti. Markmiðum um að ná hér mestri samkeppni á fákeppnismarkaði fjármálaþjónustu er best náð með því að erlendur banki myndi hefja hér starfsemi og það yrði einnig til þess að efla traust á íslenskum fjármálamarkaði. Þess vegna er mjög mikilvægt að draga úr aðgangshindrunum sem eru hér á landi til að laða að erlendan banka. Því hefur verið haldið fram, einkum af hálfu stjórnarliða, að mjög erfitt sé að fá hingað erlendan banka til að hefja starfsemi, og nánast vonlaust. Bent hefur verið á það, m.a. af Samkeppniseftirlitinu, að ekki liggur fyrir með hvaða hætti það hefur verið reynt. Það er ekkert skjalfest um að það gangi svona erfiðlega að fá erlendan banka til að hefja hér starfsemi.

Almenningur í landinu er ekki sérlega áhugasamur um áform ríkisstjórnarinnar um sölu Íslandsbanka og það er vel skiljanlegt í ljósi þess sem á undan er gengið, eftir efnahagshrunið 2008. Traust á innlendum fjármálamarkaði hefur ekki verið mikið. Regluverk og eftirlit hefur hins vegar verið bætt eftir hrunið og töluvert minni líkur á því að nýir eigendur geti tileinkað sér sömu vinnubrögð og ríktu í aðdraganda hrunsins. Mestar líkur eru á því að lífeyrissjóðirnir kaupi stóran hlut í bankanum og færa má rök fyrir því að það sé ekki æskilegt. Sjóðirnir eru orðnir mjög umsvifamiklir í fjárfestingum í atvinnulífinu og eiga nú þegar umtalsverðan hlut í Arion banka. Gleymum því ekki að lífeyrissjóðirnir eru í samkeppni við bankana, t.d. á húsnæðislánamarkaði, og einnig má færa rök fyrir því að komi lífeyrissjóðirnir til með að eignast stóran hlut í Íslandsbanka þá eigi þeir stóran hlut í tveimur bönkum af þremur. Það gæti haft áhrif á vaxtastigið í landinu og gæti jafnvel orðið til þess að vextir lækki síður vegna þess að lífeyrissjóðunum fylgir lögbundin ávöxtunarkrafa upp á rúm 3%. Það er skiljanlegt þegar þeir eru orðnir stórir eigendur að tveimur bönkum af þremur að þeir verði tregir til að lækka vexti vegna þess að það þýðir væntanlega að bankinn fær ekki eins miklar tekjur og ef vextir væru hærri. Það hefði áhrif á arðsemiskröfu lífeyrissjóðanna sem eigenda banka.

Herra forseti. Ég tel skynsamlegt að bíða með sölu Íslandsbanka þangað til óvissa um efnahag bankans er frá og endurreisn hagkerfisins er hafin. Auk þess vantar ýmsar upplýsingar um stöðu bankans, lánasafn, hversu mikið er í vanskilum. Nú rakti ég í andsvari við forsætisráðherra fyrr í dag þá ótrúlegu hugmynd Bankasýslunnar og Íslandsbanka, eftir samtal þeirra, að bankinn selji frá sér vanskilalán til innheimtufyrirtækja úti í bæ sem síðan sjái um að innheimta lán sem hafa lent í vanskilum hjá lántakendum sem hafa lent í vandræðum, t.d. vegna faraldursins, og það eru ferðaþjónustufyrirtækin mörg hver, einstaklingar sem hafa jafnvel misst atvinnuna vegna faraldursins eða veikinda og lent í vanskilum. Þá myndi bankinn ekki semja við fólk og leita leiða til þess að það geti haldið áfram að greiða og vinna í sínum málum, heldur innheimtufyrirtæki úti í bæ sem eru þekkt fyrir að innheimta af mikilli hörku fjárkröfur. Ýmislegt í þessu máli er því mjög sérstakt og maður hefur áhyggjur af því. En eins og áður segir er æskilegt að fá erlendan fjárfesti og vonandi tekst það. Í miðjum faraldri eru hins vegar minni líkur á því að það gerist og mögulegum kaupendum fækkar.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að við tryggjum að fullt verð fáist fyrir þessa verðmætu eign fólksins í landinu. Söluandvirðið ætti síðan að nýta í arðsamar framkvæmdir eins og í samgöngum og skuldir ríkissjóðs þarf einnig að minnka.

Ég ætla næst að koma aðeins að gagnsæi í þessu máli. Ég sé, herra forseti, að tíminn er liðinn og óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá.