151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé í réttu starfi á Alþingi. Mér heyrist hann vera vel að sér í öllum þessum sölufræðum og hér sé í boði söluráðgjöf Samfylkingarinnar. Ég velti fyrir mér hvort hún ætti ekki heima annars staðar en hérna. Mig langar að vita, úr því að hv. þingmaður er svona fróður um þetta allt saman, sem ég er ekki, og um markaðsviðskipti almennt, hvort hann gæti kannski kjarnað þetta aðeins fyrir okkur hér og svarað einfaldri spurningu: Hvenær nákvæmlega er rétt að selja? Er það þegar verðið er hátt og á leiðinni niður? Eða er það þegar verðið er lágt og á leiðinni upp? Það væri bara gott að fá svar við því vegna þess að mér heyrist hjá hv. þingmanni, eins og ég hef reyndar tekið eftir í umræðu hjá öðrum, að það sé aldrei réttur tími. En þetta er einföld spurning.