151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:09]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég held að svo sé ekki. Það þarf meira til. Við þurfum að gæta að hagsmunum seljandans, hagsmunum almennings, og ég held að við gerum það ekki. Ég held einfaldlega að vegna óvissunnar, við erum í miðri kreppu, fáum við ekki besta verðið sem við fengjum hugsanlega síðar. Hvað ef einhver vildi kaupa Landsvirkjun og væri til í að setja verðmiða á það? Það myndi ekki kalla fram þann vilja að selja Landsvirkjun. Og svo í ofanálag: Við vitum ekki virði Íslandsbanka, það er óvissa um eignarhlutann. Það er áhugaverð staðreynd sem sýnir hversu ómótað þetta ferli er. Það eru margir hlutir sem við eigum að gera áður en við förum í söluferlið. Ég er ekkert að segja að það séu einhver trúarbrögð að eiga hér tvo banka, en undirbúum þetta betur. Klárum umræðuna um aðskilnað milli fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Eflum Fjármálaeftirlitið en veikjum það ekki, eins og þessi ríkisstjórn hefur gert með því að fella það inn í Seðlabankann. Tökum þessi skref áður en við hefjum söluferlið, sláum ákveðna varnagla við söluna og fáum besta verðið fyrir þennan hlut. Það hlýtur að vera markmiðið. Sumir vilja kannski gefa bankann, það hefur heyrst. Ég held að við ættum ekki að gera það. Undirbúum þetta betur. Fáum meiri sátt um þetta. Það skiptir líka máli að þjóðin sé svolítið sannfærð um að hér sé gert rétt. Sporin hræða. Það er tiltölulega stutt síðan við upplifðum hér mjög sársaukafullt bankahrun. Þess vegna er mjög sérkennilegt líka að ráðist sé í þetta á allra síðustu metrum kjörtímabilsins. Það á beinlínis að ljúka sölunni í júní, korteri fyrir kosningar. Bara það eitt og sér hlýtur að vekja upp tortryggni og spurningar.