151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:39]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið afskaplega fróðlegt að hlusta á þessa umræðu í allan dag og heyra marga í stjórnarandstöðunni tala um að það sé allt í lagi að selja, en bara ekki núna. Svo þegar maður rýnir í ræðurnar kemur hin raunverulega afstaða flestra þessara þingmanna auðvitað í ljós, sem er sú að þeir vilja að ríkið eigi bankana og helst öll önnur fyrirtæki.

Það er ágætt að rifja upp fyrir þá sem hlusta hvernig þessi eignarhluti varð til. Það er eins og sumir haldi að þetta sé banki sem við höfum byggt upp, einhvers konar fjölskyldufyrirtæki. En það var það ekki. Hluturinn í Íslandsbanka er greiðsla sem við fengum út úr samningum við slitabú. Þetta er greiðsla sem nú er verið að hugsa um að breyta í peninga. Það er ekki flóknara en það. Spurningin er þá bara sú og er alveg raunveruleg spurning: Er þetta rétti tíminn til að selja? Komið hefur fram í umræðunni að hjá sumum er aldrei rétti tíminn. Það er aldrei rétti tíminn til að losa um þennan eignarhlut og breyta honum í peninga sem gætu nýst okkur betur við þær aðstæður sem nú eru, frekar en að eiga svona stóran hlut í áhætturekstri af þessu tagi.

Spurningin er auðvitað: Af hverju ætlum við að selja? Af hverju teljum við skynsamlegt að selja hlut í Íslandsbanka? Það er ljóst að það er áhætta að skattgreiðendur séu bundnir með mörg hundruð milljarða af eigum sínum í bankarekstri. Það er mikil áhætta. Við tölum oft um, þegar við tölum hér fyrir okkar málum, að líta til nágrannalandanna og hlusta á það sem sérfræðingar segja, en núna er það einhvern veginn algjört aukaatriði. Það er engin önnur frjáls þjóð í hinum vestrænu samfélögum sem er nánast með allan bankarekstur í landinu á sínum höndum. (Gripið fram í.) — Nei, það er rangt. Það er engin vestræn frjáls þjóð með það, það dettur það engum í hug. (Gripið fram í: Belgía og Holland.) — Það er alrangt. Hlutfall ríkisins í fjármálastarfsemi í þessum löndum er mjög lágt og það dettur engum í hug að ríkið reki tvo þriðju af allri fjármálastarfsemi í landinu. Það þekkist hvergi nema í alveg sérstökum löndum og ég ætla ekki að fara nánar út í það hvers konar pólitík er rekin þar og hvers konar samfélög það eru.

Við erum líka mjög upptekin, sérstaklega þeir sem tala gegn þessari sölu, af dreifðri eignaraðild og samkeppnismálum, en það þarf ekki þegar ríkið á í hlut. Þá talar enginn um dreifða eignaraðild, þá skiptir hún engu máli. Samkeppnismál? Nei. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að þetta sé mjög óheilbrigt kerfi í viðskiptabönkum. Það er mjög óheilbrigt að einn aðili, hvort sem það er ríkið eða einhver annar, sé með svona ráðandi hlut í öllu kerfinu. Núverandi staða er mjög óeðlilegt eignarhald, óeðlileg samkeppni og þetta á auðvitað ekki að þekkjast. Við eigum að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma. Við getum auðvitað deilt um það endalaust hvenær er rétti tíminn.

Ég sagði það í andsvari áðan að umræða stjórnarandstöðuflokkanna væri eins og maðurinn sem ætlaði alltaf að selja íbúðina sína en gerði það aldrei af því að hann var alltaf að bíða eftir því að aðstæður yrðu betri og betra verð fengist. Svo endaði auðvitað með því að eignin grotnaði niður. Það er sama hættan hér. Hins vegar er því ekki að neita að það er talsverð tortryggni í samfélaginu, ekki síst vegna þess að sumir stjórnmálamenn hafa raunverulega sáð fræjum tortryggni og eru nú í óðaönn að sá enn meiri tortryggni, vísa í einkavæðingu ríkisbankanna, sem var allt annað dæmi hér um aldamótin, þar sem voru ríkisbankar. Þeir voru að vísu algerlega ógjaldfærir, ónýtir bankar sem gátu ekki sinnt atvinnulífinu, en látum það liggja á milli hluta.

Regluumhverfið er allt annað núna. Hér er bara hlutur í félagi sem reiknað er með að setja á markað. Og þá er spurningin: Fáum við viðeigandi verð eða fáum við það ekki? Fáist ekki viðeigandi verð sem við teljum eðlilegt þá verður hann ekki seldur. En þessari tortryggni er sáð og síðan kemur málflutningurinn um mjólkurkú og gullgæs. Arður af hefðbundinni bankastarfsemi er lítill og raunverulega allt of lítill miðað við verðmæti og eignir þessara banka. Ríkið er ekki rétti aðilinn til að standa í þessari samkeppni frekar en annarri og það er hættulegt að við séum að binda fé með þessum hætti. Þetta er síður en svo mjólkurkýr og verður örugglega ekki meiri mjólkurkýr eða gullgæs, ekki frekar en Íbúðalánasjóður sem menn stofnuðu hér, sem vel að merkja hefur þegar kostað okkur u.þ.b. 60 milljarða í útgjöld frá skattgreiðendum, þessi glæsilegi banki okkar, samfélagsbanki, við getum kallað hann það. Staðan er sú að við skuldum sjálfsagt 180 milljarða umfram eignastöðu í þeim banka. Við vitum því hvert tjón okkar mun verða þótt síðar verði.

Ég ætla ekki í þessa vegferð aftur ef ég kemst hjá því. En það breytir því ekki að við þurfum að sannfæra almenning um að þetta sé óskynsamlegt, að þetta sé óeðlilegt umhverfi. En ég skil tortryggnina, hún er eðlileg að mörgu leyti. Það er svo auðvelt fyrir okkur að segja: Já, það eru arðgreiðslur af þessu. Við höldum þessu bara áfram. Ef það verður tjón af þessu síðar verða það aðrir sem borga en við. Ég heyrði það líka hér í umræðunni að mönnum finnst algjört aukaatriði að innleysa þessa peninga við þessar aðstæður, sem mér finnst alveg óskiljanlegt, af því við erum auðvitað mjög skuldug núna og getum nýtt þessa peninga til miklu arðbærari fjárfestinga. Þá segja menn alltaf: Við getum bara tekið lán, við tökum bara lán, þau eru á lágum vöxtum, við getum bara aukið útgjöld ríkisins, alltaf. Það er ekkert mál að auka útgjöld ríkisins. Okkur finnst það svo lítið mál vegna þess að það eru komandi kynslóðir sem munu borga.

Við hugsum alltaf bara um okkur akkúrat núna, en við þurfum að hugsa lengra. Það er í raun og veru fráleitt að eiga öll þessi verðmæti bundin í áhætturekstri. Ríkissjóður á aldrei að gera það og það gerir það enginn annar ríkissjóður með þeim hætti sem við gerum. Við ættum að kíkja til annarra landa og sérfræðinganna sem okkur verður svo tíðrætt um.