151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að tala um óvissuna í þessu máli öllu. Það er nefnilega óþægilega mikil óvissa sem ríkir í kringum allt þetta fyrirhugaða ferli í boði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks. Ef við byrjum á því af hverju farið er í ferlið sjálft núna eru ástæðurnar fyrir því algjörlega á huldu og óvissa ríkir þar um. Óvissuna er meira að segja að finna í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins um hvers vegna sé gott að ráðast í sölu á hlut ríkisins núna. Það að rökstuðningurinn sé sá að það sé tiltekið í stjórnarsáttmála er hreinlega ekki nægjanleg afsökun fyrir almenning, frú forseti.

Ef einhverjum dettur í hug að hækkun á mörkuðum sé nægjanleg ástæða, eins og fram kemur í minnisblaði Bankasýslu með tillögu fjármálaráðherra um að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka núna, þá langar mig að benda á það sem aðrir hafa bent á í umræðunni í dag, að þessi mikla hækkun markaða frá mars, þegar hæstv. fjármálaráðherra útilokaði sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka þar til í desember að hann skipti um skoðun, var vegna gríðarlega mikillar lækkunar á mörkuðum frá febrúar til mars. Þannig að já, auðvitað fóru markaðir upp á við eftir þá gríðarlega miklu dýfu, sem betur fer, en er ekki nægjanleg ástæða til þess að ráðist sé í þessa vegferð.

Það er líka óskýrt og óvissa um í hvaða verkefni er áætlað að nýta fjármagnið sem fæst fyrir söluna á hlut ríkisins í bankanum. Á að nýta fjármunina til að greiða niður skuldir eða til að fjármagna innviðaframkvæmdir? Engin skýr svör um það hafa komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, minnisblaði hans eða í máli annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar um hver vilji ríkisstjórnarinnar er um það. Það er mjög ógreinilegt hver meðferð fjármuna sem eiga að fást fyrir söluna verður. Í því samhengi má benda á að ef ætlunin er að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem ég myndi ætla að ætti ekki að vera forgangsatriði á tímum mesta atvinnuleysis sem við höfum upplifað í marga áratugi, þá skiptir máli að vextir á skuldum ríkisins hafa haldið áfram að lækka. Ávinningurinn af því að selja banka og greiða upp skuldirnar er því enn minni en áður. Arðgreiðslur sem ríkið missir af vegna sölu gætu því verið hærri en vextir sem ríkið þarf ekki að greiða ef það notar söluandvirðið til að grynnka á skuldum. Þetta hefur m.a. Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagt.

Svo til að bæta á óvissuna er óvissa um hversu stóran hlut eigi að selja. Engin skýr svör hafa fengist frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar um hversu mikinn hluta ríkisins í bankanum þeir ætli sér að selja. Engin skýr svör eða tillögur hafa heldur komið fram um hvaða verð teljist ásættanlegt fyrir hlutann. Í minnisblaði Bankasýslunnar með tillögu til fjármálaráðherra er meira að segja gert ráð fyrir að hætt verði við söluna ef hvorki fáist ásættanlegt söluverð né ásættanleg arðgreiðsla. Hvert ásættanlegt söluverð er liggur algjörlega á huldu. Hér skortir, frú forseti, hreinlega skýrar línur, skýrar upplýsingar og skýrar ástæður hjá ríkisstjórninni fyrir því að fara í þennan leiðangur núna.

Það er líka margt fleira sem skortir. Það skorti til að mynda ýmislegt í flutningsræðu hæstv. fjármálaráðherra hér í dag. Hann talaði um að markaðurinn væri heilbrigður. Að segja hér við okkur, kjörna fulltrúa almennings, að markaðurinn sé heilbrigður á þessum tímum sem við lifum er hreinlega með ólíkindum. Efnahagsleg óvissa hér á landi og allt í kringum okkur hefur aldrei verið jafn mikil, aldrei. Efnahagsleg óvissa vegna Covid er í algleymingi, ekki bara hér á landi heldur í helstu viðskiptalöndum okkar. Ekkert bendir til að hagkerfi nágrannalandanna muni rétta úr kútnum á næstunni. Skjót endurreisn ferðaþjónustunnar hér á landi er því miður ekki í augsýn og það er líklega leitun að fjármálaráðherra beggja vegna Atlantshafsins sem talar með þeim hætti sem sá íslenski gerði núna í dag þegar hann lýsti því yfir að markaðurinn væri heilbrigður. Það að segja að það sé rökstuðningur fyrir því að fara í sölu á hlut ríkisins núna er í besta falli útúrsnúningur. Má ég benda fjármálaráðherra á að engir aðrir ríkissjóðir, engar aðrar ríkisstjórnir í kringum okkur, í nágrannalöndum okkar, hafa verið að selja hluti sína í fjármálastofnunum eða í opinberum sjóðum við þær ótrúlega erfiðu efnahagsaðstæður sem ríkja. Í minnisblaði Bankasýslunnar er meira að segja viðurkennt að í Evrópu séu afar fá dæmi um sölu eða sameiningar á bönkum um þessar mundir. Eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson reifaði þá eru bankar í ríkiseigu í Belgíu, í Hollandi, Írlandi og Noregi og engin af ríkisstjórnum þessara landa er að undirbúa sölu á hlut sínum í þeim bönkum.

Frú forseti. Öll þessi óvissa er slæm. Það er vont að leggja af stað í krossferð sem keyrð er áfram með hugmyndafræði eins stjórnmálaflokks að leiðarljósi en ekki með hag almennings í huga. Hér verður að eiga sér stað umræða, djúpstæð umræða í þjóðfélaginu um fjármálakerfið til framtíðar. Hér verður bankakerfið að vera skipulagt með almenningshagsmuni að leiðarljósi. Það óvissuástand sem ríkir núna kallar einfaldlega ekki á það að selja bankann vegna þess að bæði er ekki vitað hvað við fáum fyrir hlutinn sem á að selja, sem er líka í óvissu, og ekki hvernig eignarhaldið verður og það skiptir máli. Það skiptir máli að við vitum það fyrir fram þegar þessi umræða er keyrð í gegnum þingið, að við vitum hverjar hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru um eignarhaldið. En þær hafa því miður ekki komið fram, frú forseti.

Það er skortur á framtíðarsýn sem ég sakna ótrúlega mikið í allri þessari umræðu. Það er skortur á framtíðarsýn um uppbyggingu fjármálakerfisins sem hlýtur að þurfa að glíma við þær framtíðaráskoranir sem við horfumst öll í augu við, sem eru loftslagsbreytingarnar, að minnka ójöfnuð og tryggja hag almennings við þá endurreisn sem blasir við okkur öllum í kjölfar heimsfaraldurs. Þetta eru stóru áskoranirnar sem við þurfum að glíma við og til þess hljótum við að vilja þær miklu arðgreiðslur sem komið hafa úr Íslandsbanka á síðastliðnum árum frekar en að selja hlut okkar í bankanum á tímum þegar væntanlegt er að lágt verð fáist fyrir hlutinn og mjög mikil óvissa ríkir í kringum allt söluferlið, hverjir hugsanlegir eigendur verða og hvað hugsanlegir eigendur hugsa sér við ráðstöfun á þeim fjármunum.