151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur farið yfir málið með sínum hætti og vísaði til stefnu Vinstri grænna og ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar fyrr í kvöld þar sem hann dró upp ansi skýra myndlíkingu. Hann spurði: Er ástæða til þess að bifreiðarstjóri sem hefur farið grýtta gamla slóð og keyrt út í skurð keyri þá leið aldrei aftur þó að búið sé að byggja veginn upp á alla kanta og jafnvel malbika? Ég segi bara: Þetta er auðvitað ekki einhlítt en ef sömu glannarnir sitja undir stýri, keyra með ljósin slökkt í kolsvartamyrkri og brjálað partí í aftursætinu, þá segi ég nei. Það er engin ástæða til að vera með asa.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað liggur á? Hvaða ræður þessu óðagoti nú á elleftu stundu fyrir kosningar? Við búum við algeran óvissutíma í samfélagsmálum að mörgu leyti, í efnahagslegu tilliti sem og mörgum öðrum. Er það virkilega sannfæring þingmannsins að sala á hlut í Íslandsbanka sé svo mikið forgangsatriði að ekki sé ástæða til að staldra við og sýna svolitla skynsemi? Ég er ekki að vísa til einhverra hagstjórnarskóla eða -kenninga heldur almennrar skynsemi. Er virkilega ástæða til að vera með þennan asa? Telur þingmaður ekki ástæðu til að staldra ofurlítið við og bara draga andann djúpt?