151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna líkingarinnar sem hv. þm. Guðjón Brjánsson var með hér, og vitnaði þar í orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar um hvort keyra ætti sama slóðann aftur þegar maður hefði fengið reynslu af honum, þá er það einmitt svo mikilvægur partur af þeirri samlíkingu að það skiptir dálítið miklu máli hvort búið er að laga slóðann, gera eitthvað við hann og gera hann greiðfærari. Ég fór yfir það í ræðu minni að það hefur einmitt verið gert. Með lögum um sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var skrifað inn ferli og gætt hefur verið að ýmiss konar varúðarsjónarmiðum. Mjög margt hefur verið gert til að breyta umgjörðinni um bankana. Það finnst mér vera algjört grundvallaratriði í þessum málum. Við erum ekki að keyra sama gamla slóðann, við erum að keyra á nýjum og breyttum vegi. Þess vegna tel ég það ekki bara ásættanlegt heldur algerlega þorandi.

Ég kom einnig inn á það í ræðu minni að þetta væri partur af ferli sem hefði verið í gangi allt frá því að ríkisstjórnin var stofnuð. Ég er einfaldlega ekki sammála því að hér sé einhver asi á ferðinni. Það hefur verið skoðað hvaða leiðir ætti að fara. Það hefur verið horfið frá hugmyndum. Það á einmitt að gera í svona máli. (Forseti hringir.) Það á að leita að bestu leiðinni. Það held ég að við séum að gera hér með mjög varfærnum hætti.