151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:12]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég geri ekki lítið úr því að umgjörðin hefur tekið stakkaskiptum. Hún er styrkari. Það breytir ekki því að ef bílstjórarnir eru þeir hinir sömu skiptir það ekki máli og eins gott að setja lokunarslána fyrir. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist vera ásættanlegt tilboð. Hvar er gólfið í huga ykkar í Vinstri grænum? Eða skiptir það engu máli? Er þetta hluti af einhverju samkomulagi milli stjórnarflokkanna um að þetta fari í gegn, gegn því að einhver önnur atriði af hálfu Vinstri grænna fái bjartara ljós í meðförum þingsins? Eru hrossakaup í gangi? Mig langar sömuleiðis að spyrja hv. þingmann: Telur þingmaðurinn það merki um óheilbrigt samfélag sem ákveður að eiga hlut í bankakerfinu að verulegu leyti um lengri eða skemmri tíma? Er eitthvað óheilbrigt við það? Ég vil undirstrika að það er stefna okkar í Samfylkingunni að ríkið eigi ekki að hafa bankakerfið á sinni hendi en við eigum að hafa þar ítök og eiga verulegan hlut í að minnsta kosti einum banka. Varðandi eignarhlutinn sem talað er um, þ.e. 25% og 35% kom nú upp í dag: Hvar setja Vinstri grænir hælana niður? Hvað ef eitthvert ofsatilboð býðst að mati samstarfsflokkanna um kannski 40–50% eða 49%? (Forseti hringir.) Hvar setja hv. þingmenn í flokknum hælana niður?