151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir stefnu Vinstri grænna um mikilvægi þess að selja banka og koma Íslandsbanka í hendur einkaaðila og mér heyrist hv. þingmaður telja að þessi tími sé einstaklega góður til þess. Mér fannst hv. þingmaður ekki svara hv. þm. Guðjóni Brjánssyni nægilega vel þegar hann spurði út í þessa tímasetningu. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara yfir það með okkur af hverju hún telur það vera góðan tíma til að selja banka þegar við erum í dýpstu efnahagskreppu í 100 ár og það er mikil óvissa í samfélaginu. Það er mikil óvissa í atvinnulífinu. Það er mikil óvissa varðandi lánasafn bankans. Opinberar tölur segja 20% en fréttir innan úr bankanum segja rúmlega 10% vera í frystingu eða um 100 milljarðar og ekki er vitað hvað verður um, en fyrirtækin sem hafa óskað eftir frystingunni, sem flest eru ferðaþjónustufyrirtæki úti um landið, treysta á að semja við sinn viðskiptabanka þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Af hverju finnst hv. þingmanni þetta vera góður tími til að selja banka? Var hún ósammála því þegar Bankasýslan kom með þá tillögu að fresta söluferlinu vegna þess að óvissan var mikil í mars? Hvað hefur breyst? Af hverju er þetta góður tími? Er ekki, hv. þingmaður, tími fyrir allt, en þessi tími ekki góður fyrir bankasölu?