151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nú gott að fá fram frá hv. þm. Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Það var skrifað í stjórnarsáttmálann haustið 2017 að það ætti að selja eða finna leiðir til að minnka, ég man ekki orðalagið nákvæmlega, það er ekki talað beint um sölu en að minnka eignarhlutinn, og af því að það stendur í stjórnarsáttmálanum verður að drífa í því áður en kjörtímabili lýkur. Skil ég hv. þingmann rétt? Þetta er ferli sem átti að fara í gang af því að það var skrifað 2017 inn í stjórnarsáttmálann og það verður að ljúka því áður en kemur að næstu kosningum. Eða hvað? Hverjum öðrum en íslensku ríkisstjórninni dettur í hug að selja banka í ríkiseigu, selja banka við þessar óvissuaðstæður? Það er eitthvað annað, frú forseti, en hagur almennings sem þarna fer fremstur vegna þess að öll rök hníga að því að í þessu óvissuástandi eigum við að bíða með söluna. Við eigum að bíða með söluna. Okkur vantar ekki peninginn og ef við værum að setja upp reikningsdæmið: Hvort eigum við að taka lán til þess að fara í borgarlínuna eða hvað það nú er sem menn vilja borga með þessum peningum, eða selja hlutinn? Þá er það einfalt reikningsdæmi. Það er miklu hagstæðara að taka lánið en að selja hlutinn. Við eigum ekki að selja hlut í banka sem gefur góðan arð (Forseti hringir.) til þess að greiða niður lán t.d. sem er með neikvæða raunvexti. Það er bara galið.