151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eigum við að selja banka bara til að selja banka eða eigum við að eiga banka bara til að eiga banka? Um það hefur verið spurt nokkuð oft úr þessum ræðustóli í dag þegar við ræðum munnlega skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Síðustu daga hafa fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis unnið að gerð umsagna til fjármála- og efnahagsráðherra um greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Ráðherra óskaði umsagna nefndanna og að þær lægju fyrir eigi síðar en 20. janúar 2021. Undanfarna daga hafa þessar nefndir því unnið stíft að því að skoða greinargerðina og leita eftir umsögnum um það sem þar kemur fram. Það verður áhugavert að sjá þá umfjöllun en ég hef ekki tekið þátt í vinnu nefndanna.

Fyrir nefndunum liggur greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í samræmi við ákvæði laga um slíka sölu. Með öðrum orðum er unnið samkvæmt fyrirfram ákveðnu ferli. Í greinargerðinni sem er til umfjöllunar hjá nefndunum koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig henni verði háttað að öðru leyti. Þá hefur jafnframt verið óskað eftir formlegri umsögn frá Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Eftir að umsagnir nefnda Alþingis og Seðlabanka Íslands liggja fyrir verður tekin endanleg ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í þeirri ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina. Ákvörðunina getur ráðherra síðan endurskoðað á öðrum stigum ferlisins.

Það sem ég er að segja með þessum orðum er að ákvörðunin er ekki tekin hér á Alþingi en við eigum að sjálfsögðu að ræða málin hér eins og við höfum gert í dag. Vissulega hafa bæði komið fram rök með og á móti sölunni. Ég sé ýmis rök sem styðja þessa sölu, m.a. þau að eignarhald íslenska ríkisins í fjármálastofnunum er hlutfallslega hátt miðað við öll þau lönd sem við berum okkur almennt saman við. Svo er mjög mikilvægt að líta til þess að starfsumhverfi fjármálakerfisins er á engan hátt sambærilegt því sem það var fyrir tíu árum, hvað þá fimmtán. Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi banka, bæði alþjóðlega og hér innan lands.

Ég vil gjarnan rifja það hér upp að eitt af því sem kom mér hvað mest á óvart í störfum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 2013–2016 var hvað mikið var þá í rauninni að skila sér inn í laga- og regluverk af alþjóðlegri vinnu sem fólst í því að styrkja allar reglur sem snúa að starfsumhverfi banka, m.a. til að tryggja að það væri sambærilegt milli landa. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni í dag og ég er algerlega sammála því að í öllu því ferli sem nú er fram undan varðandi sölu á þessum eignarhlut er lykilatriði að það sé gagnsæi, eignarhald á hlutnum dreifist og Alþingi verði haldið upplýstu eftir því sem verkefninu vindur fram.

Mig langar að koma að því, eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson gerði fyrr í umræðunni, að umræðan um samfélagsbanka er fjarri því að vera farin frá okkur. Við Framsóknarmenn viljum halda því til haga, sem er í stefnuskrá okkar, að tækifæri eru til þess að velta því upp hvort Landsbankinn geti orðið samfélagsbanki og mikilvægt er að fara í umræðu um kosti og galla þess að hann verði það. Eins og kunnugt er hefur Framsóknarflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni um nokkurt skeið. Svo að vitnað sé í ályktun frá flokksþingi 2018 telur flokkurinn að annar ríkisbankanna ætti að vera áfram í eigu þjóðarinnar með það að markmiði að þjóna samfélaginu sem best. Meðal annars til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að samfélagsbanki hafi þann tilgang að bjóða þjónustu á sem bestum kjörum. Þannig mætti efla samkeppni í bankaþjónustunni á landsvísu.

Ættum við kannski að nota tækifærið núna og setja af stað vinnu við að rýna betur hvaða hlutverki við viljum að ríkisbanki gegni í samfélaginu?

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé farið fram af skynsemi þar sem eitt skrefið er stigið í einu og horft vel yfir sviðið, litast um á milli þeirra skrefa sem tekin eru, m.a. vegna þess að áform um sölu hafa legið fyrir lengi og heimildin til sölu hefur líka legið fyrir í nokkur ár og verið til skoðunar jafnt og þétt.

Að lokum, virðulegi forseti: Er kannski skynsamlegra að byggja upp innviði landsins eða greiða niður skuldir en að binda fjármuni ríkisins í banka, sér í lagi þegar ríkið á tvo banka? Þeir sem vilja heldur eiga viðskipti við ríkisbanka geta þá áfram snúið sér til Landsbankans. Svo megum við auðvitað ekki gleyma því að hægt er að eiga viðskipti við sparisjóðina sem starfa á sumum svæðum um landið. Auðvitað er líka mikilvægt að velta því fyrir sér hvaða hlutverki þeir geta gegnt í fjármálakerfinu.