151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé nægilegt gagnsæi í þessu ferli. Við erum auðvitað með lögin frá 2012 þar sem segir hvaða skref eigi að taka, en við vitum ekki einu sinni hvað á að selja stóran hlut í bankanum og við vitum ekki hvað er ásættanlegt verð. Og þó hafa stjórnarliðar komið hér hver á eftir öðrum upp í ræðustól í dag og sagt: Ja, við hættum bara við ef ekki er hægt að fá ásættanlegt verð. Hvað er ásættanlegt verð? Og hver er það sem getur hætt við? Þingið getur ekki stoppað þessa sölu. Það er einungis fjármála- og efnahagsráðherra sem getur gert það. Þannig að traustið til hans hlýtur að vera mikið meðal stjórnarliðanna í þessu ferli öllu saman. En hv. þingmaður talaði um að umræðan um samfélagsbanka væri ekki farin frá okkur. En er tækifærið ekki farið frá okkur ef við erum farin að selja bút úr öðrum ríkisbankanum þegar við hefðum getað verið með eignarhald á báðum (Forseti hringir.) og skipt þeim upp og tekið hluta sem samfélagsbanka og annan hluta þá sem fjárfestingu?