151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvörin. Ég vil byrja á því að segja að tækifærið til umræðu og greiningar á því hlutverki sem við viljum að samfélagsbanki eða banki í eigu ríkisins gegni er engan veginn farið frá okkur á meðan við eigum Landsbankann. Kannski aukast tækifærin til þeirrar umfjöllunar enn frekar þegar við erum búin að losa um eignarhald í Íslandsbanka. En auðvitað er mjög mikilvægt að horfa á það í öllu ferlinu sem fram undan er, sem liggur fyrir í skýrslunni sem er til umfjöllunar í nefndunum, að það eru ákveðin skref sem þarf að stíga til að meta hvað er ásættanlegt verð og í rauninni hversu stór hluti verður seldur á endanum. En ef ég skil þetta rétt þá getur það orðið allt að 25%. (Gripið fram í: Það er lágmark.) — Já. (Gripið fram í.) — Já, en það er eitt af því sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið að fjalla um síðustu daga, ef ég skil það rétt, hvort benda ætti á að ramma það eitthvað betur inn. En það mun skýrast nánar í því ferli sem er fram undan sem er býsna vel skilgreint.