151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi bara eins og hagsýn húsmóðir: Það er sama hvaðan gott kemur. Er það ekki af hinu góða að fjármálastofnanir jafnt sem aðrar stofnanir skili hinu opinbera dágóðum tekjum? Við erum alla daga, allar nætur að bisa við að finna leiðir til þess að afla samfélaginu tekna til að geta staðið undir þeirri miklu og góðu þjónustu sem við veitum. En mér fannst ég ekki fá skýrt svar hjá hv. þingmanni um það: Finnst henni skynsamlegt á þessum tímamótum, á þessum óvissutímum, að selja verðmætar bankastofnanir frá okkur út úr samfélaginu? Við vitum alveg hvernig fór í síðustu einkavæðingarhrinu sem var skrautleg og fingraför Framsóknarflokksins eru á því. En potturinn og pannan var auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn. Það ævintýri endaði með hreinni ævintýramennsku á heimsmælikvarða. Aðeins að dýpka það sem ég spurði um.