151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að það væru kostir og ókostir við sölu bankans. Hún rakti í stuttu máli helstu kosti en ég varð ekki var við hverjir væru ókostirnir. Ég sé þá ekki. Ég velti fyrir mér hvort það sé sama hugmyndafræði og hefur komið fram hjá Samfylkingarþingmönnum, að ekki eigi að selja á óvissutímum. Er eitthvað betra að ríkissjóður eigi þetta heldur en einhverjir aðrir ef það eru óvissutímar? Eða erum við að tala um að ókosturinn sé að þetta sé einhver gullgæs eða mjólkurkýr eins og sumir hafa talað um hér? Þær greiðslur sem við höfum fengið úr þessum bönkum eru í fyrsta lagi ekkert miklar miðað við verðmæti hlutarins. En þær hafa auðvitað ekki verið það af hefðbundinni bankastarfsemi heldur af ýmsum einskiptisaðgerðum í kringum yfirtöku á bönkunum. Þannig að við höfum ekki haft þá reynslu af rekstri ríkisbanka. Það er ekki eins og við séum nýbyrjaðir á því, við rákum þrjá stóra ríkisbanka sem skiluðu aldrei neinum arði í ríkissjóð heldur höfðu skattgreiðendur talsverðan kostnað af þeim bönkum. Við vorum með banka sem við köllum Íbúðalánasjóð sem hefur kostað okkur stórfé og ekki útséð með það enn þá hvað hann mun kosta skattgreiðendur, sennilega um 250 milljarða. Ég sé því enga kosti við að ríkið eigi svona stóran hluta í bankakerfinu. Það eru engar aðrar þjóðir með þetta. Það er ekki skynsamlegt með neinum hætti út frá áhættu. Ef illa fer er enn verra að ríkið sé með þetta allt í fanginu heldur en aðrir þó að auðvitað muni alltaf vera tjón fyrir ríkissjóð ef illa fer í bankakerfinu. En við þurfum ekki að auka á það. Þannig að ég spyr bara: Sérðu einhverja ókosti, hv. þingmaður?