151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að það er tortryggni í samfélaginu og ég hlusta líka á fjöldann allan af þingmönnum vera að sá tortryggni meira og meira. Það var engin krafa hjá þjóðinni 2016 að eignast Íslandsbanka. Af hverju ætti krafan að vera sú núna að eiga hann áfram? Ég skil það ekki. En auðvitað er hægt að sá þessari tortryggni endalaust og fara að vísa í eitthvert allt annað umhverfi, árið 2002 eða eitthvað slíkt, og telja fólki trú um að alþjóðleg bankakreppa hafi orðið vegna þess að íslensku ríkisbankarnir voru seldir. Það hafði ekkert með þá kreppu að gera. Þessir vondu bankar öfluðu hins vegar ríkissjóði óheyrilegra tekna alveg fram að hruni. Svo vorum við svo skynsöm að við settum mesta áfallið á kröfuhafana í þessum bönkum. Ég hef oft velt því fyrir mér hver staða ríkissjóðs hefði verið hefðum við átt þessa banka alla með þeim skuldbindingum sem því fylgir. Það er önnur umræða.

Það er líka allt önnur umræða hvort við erum að tala um samfélagsbanka eða eitthvað slíkt. Við höfum reynslu af ríkisbönkum og hún er ekki góð. Ef menn tala um að Íbúðalánasjóður hafi verið samfélagsbanki, bara í öruggum lánum og að aðstoða fólk við að eignast íbúðir, þá er sá banki u.þ.b. að kosta okkur 250 milljarða.

Ég segi: Metum það bara. Fáum við ásættanlegt verð fyrir þetta? Göngum bara í þetta söluferli. Það kemur þá bara í ljós. Mér finnst ekki þurfa langa umræðu um þetta ef satt skal segja og alls ekki vangaveltur og tortryggni út og suður, sem mér finnst blasa við að hafi verið mjög áberandi í umræðunni — ég er ekki að væna þennan ákveðna hv. þingmann um það sérstaklega. Það hefur verið talað um óvissutíma, það hefur verið talað um að ekki fáist ásættanlegt verð o.s.frv. Það kemur bara í ljós.