151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:13]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni svörin og hugleiðingarnar. Já, það var ekki beðið um þessa banka, þeir lentu í fanginu á ríkinu á sínum tíma. En staðan er sú að þeir eru í ríkiseigu núna. Það er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir hér í dag, nú þegar við ræðum þetta. Hvernig það kom til er raunverulega önnur umræða. Þetta er svona núna. Þetta hefur verið arðbært fyrir ríkissjóð. Það hefur verið sýnt fram á að þetta er arðbær starfsemi, ef hún væri það ekki væri enda varla hægt að selja hana. Höldum okkur endilega í þessari umræðu hér. Og jafnvel þó að ríkinu hafi áskotnast þetta á einhvern hátt er það ekki að öllu leyti svo neikvætt að það þurfi strax að reyna að losa sig við þetta, sama hvað. Það er allt í lagi að taka það inn í mengið hvað er að gerast og það er eðlilegt að gera það í miðjum heimsfaraldri, krepputíð o.s.frv. Það er bara eðlilegt. Maður væntir þess að stjórnvöld geri það, horfi á alla hluti. Um það snýst þessi umræða fyrir mér, sem er að ljúka. Ég hefði bara viljað dýpri, vandaðri og upplýstari umræðu með þinginu og þjóðinni á svipaðan hátt og hefur verið gert með Covid-19.