151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara að halda stutta lokaræðu af því að það er orðið áliðið. Ég hef verið svolítið hugsi yfir þessari umræðu og finnst margir þingmenn hafa farið þá leið strax að gera þessa fyrirhuguðu sölu á hlut ríkisins í bankanum mjög tortryggilega og reyna að blanda því saman við sölu á ríkisbönkum fyrir 20 árum, í allt öðru lagaumhverfi, við allt aðrar aðstæður, og reyna með þeim hætti að sá tortryggni í huga almennings.

Ég vil bara ítreka það í lokin að það stóð aldrei til að ríkið eignaðist Íslandsbanka. Þetta var greiðsla, hluti af samkomulagi ríkisins við slitabúin um greiðslur til sín. Þessi greiðsla var í formi hlutabréfa í bankanum. Það stóð aldrei til að ríkið ætlaði að reka þennan banka. Nú ætlum við að umbreyta þessum hlut í peninga, af því að við teljum að það geti nýst okkur betur, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru. Nú eru aðstæður til að selja vegna þess að það er fjárfestingarþörf. Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað með fulla vasa af peningum sem þeir þurfa að koma í vinnu, í einhverjar fjárfestingar. Það má líka búast við að erlendir fjárfestingarsjóðir og Íslendingar sjálfir séu tilbúnir að nota sitt sparifé til að fjárfesta í þessum banka. Þær aðstæður eru greinilega í samfélaginu. Við sáum það við útboðið á hlut í Icelandair. Menn hafa trú á því að hér verði viðspyrna og endurreisn efnahagslífsins og það er mjög eðlilegt og mjög líklegt að það verði nokkuð fjölbreytt eignarhald þegar bréfin verða til sölu.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er tortryggni í samfélaginu. Sumir eru auðvitað bara þeirrar skoðunar, og ég skil það alveg ef menn eru þeirrar skoðunar, að ríkið eigi að eiga helstu fyrirtæki landsins, ég tala nú ekki um þau sem hugsanlega geta tímabundið skilað arði. En það er ekki æskilegt að ríkisvaldið sé í áhætturekstri af þessu tagi, sé ráðandi á samkeppnismarkaði svo yfirgnæfandi eins og er í bankakerfinu. Við vitum að þetta umhverfi er að breytast. Við vitum að það hefur aldrei verið skynsamlegt að ríkið sé eigandi í slíku breytingaferli og það verður auðvitað ekki skynsamlegt núna. Það eru aðrir miklu betur til þess fallnir að fara í slíka samkeppni á fjármálamarkaði en ríkissjóður.

Það er okkar hlutverk núna að draga úr tortryggni meðal almennings og koma því til skila að þetta er skynsamlegt í alla staði fyrir okkur öll, það er ekki forsvaranlegt að við tökum áhættu af þessu tagi með skattfé upp á mörg hundruð milljarða. Það er ekki forsvaranlegt í mínum huga. Það kann að vera að það trufli ekki marga vegna þess að ef illa fer þá eru það komandi kynslóðir sem greiða en ekki við. En við getum ekki leyft okkur að hugsa þannig og ég skora á almenning og alla að skoða vel skynsemina í þessu í stað þess að vera fastir í gömlum kreddum. Takk fyrir.