151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Nú stendur til að ríkisvæða forvarnir. Færa á skimanir fyrir brjóstakrabbameini frá Krabbameinsfélaginu inn í dýrasta úrræði heilbrigðiskerfisins, sjúkrahúsin. Landspítala er ætlað að skima fyrir þessu krabbameini í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Ekki nóg með það því nú bregður svo við að hækka á aldursviðmið vegna skimana úr 40 árum í 50 og engin haldbær rök hafa verið sett fram. Á síðastliðnum árum hefur að meðaltali greinst 31 kona á milli 40–50 ára og það hlýtur að skipta máli. Þessar konur skipta máli. Þessi yfirfærsla á forvörnum sem skimun vegna krabbameina er hefur alls ekki gengið vel. En svo virðist sem ráðherra málaflokksins ætli að koma henni í gegn. Konurnar eiga að mæta í skimun inn á sjúkrahús þrátt fyrir að vera fullfrískar, þær eru ekki veikar, þær eru að taka ábyrgð á eigin heilsu, og þrátt fyrir að Landspítalinn sé yfirfullur og ofhlaðinn verkefnum. Flest okkar hafa séð fréttir undanfarna daga þar sem konur og sérfræðingar stíga fram og lýsa áhyggjum sínum vegna sýna sem eru í pappakassa, allt í óreiðu í boði heilbrigðisráðherra. 2.000 konur bíða nú í fullkominni óvissu um hvort strok í leghálsi sýni krabbamein eða ekki. Þar á meðal eru sýni sem þurfa bráða skoðun, enn ein óreiðan sem verður til vegna þess að ríkisvæða á forvarnir.