151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get ekki annað en verið sammála honum. Ég er hræddur um að vandamál okkar liggi í því að ef við byrjum á þessu styrkjakerfi lendum við í vandræðum.

Við þurfum líka auðvitað að ræða, eins og hann sagði, stóra bleika fílinn í öllu umhverfinu. Við erum með ríkisrekinn fjölmiðil sem fær 5 milljarða á ári á fjárlögum og 2 milljarða í auglýsingatekjur, alls 7 milljarða. Á sama tíma sjáum við litlar stöðvar, útvarpsstöðvar og jafnvel sjónvarpsstöðvar, sem geta rekið sig á brotabroti af þeirri upphæð. Þessi fjölmiðill hefur þanist út og einhverra hluta vegna þurfti í miðjum Covid-faraldri að styrkja hann enn meira. Ef ég man rétt fóru um 400 milljónir í aukastyrki vegna Covid og ég spyr: Er ekki kominn tími til að brytja fyrirtækið niður og taka það af auglýsingamarkaði? Er ekki nóg fyrir ríkið að vera með eina rás, Rás 1, eina sjónvarpsstöð og fréttir?

Í Finnlandi eru fjölmiðlar styrktir þar sem tungumál eru í hættu. Mér finnst Finnar, eftir því sem kemur hérna fram, vera þeir einu sem gera þetta með viti, þeir reyna að afmarka þetta við eitthvert sérstakt málefni en ekki bara almennt af því að við viljum styrkja alla. Þeir sem hafa nægt fjármagn í vasanum og eiga fjölmiðla eiga ekki að fá styrki.