151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

reglubundin og viðvarandi upplýsingaskylda útgefenda verðbréfa og flöggunarskylda.

341. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu svo neinu nemur. Ég vil bara ítreka það sem ég nefndi áðan varðandi erlenda fjárfestingu, hún styrkir stöðu okkar og er til þess fallin að styrkja efnahagslegar stoðir landsins. Aukin vigt erlendra aðila í íslensku hagkerfi eykur fjárfestingu og skapar betri tengsl við erlenda markaði. Það er mjög mikilvægt. Hún eykur framleiðslu og bætir markaðssetningu okkar á erlendum mörkuðum. Allt eru þetta mjög mikilvægir þættir og sérstaklega í þeirri margumtöluðu viðspyrnu sem fram undan er, sem við vonum svo sannarlega að komi til með að ganga vel.

Erlend fjárfesting er töluverð á Íslandi og hefur verið að aukast síðustu ár. Fjárfestingarnar eru margar, þær ná til ólíkra atvinnugreina og skapa fjölbreytt störf. En þrátt fyrir að aukning hafi orðið í erlendri fjárfestingu síðustu ár hér á landi er umfangið engu að síður minna miðað við mannfjölda en almennt er, erlend fjárfesting er meiri í fámennari ríkjum sem við berum okkur saman við. Hún er ákaflega mikilvæg í því sem fram undan er þegar við reynum að snúa við þeim mikla samdrætti sem hefur átt sér stað hér vegna kórónuveirufaraldursins. Þess vegna verða stjórnvöld að leggja sitt af mörkum við að skapa hér samkeppnishæft og eftirsóknarvert rekstrarumhverfi.

Við erum að sjálfsögðu ekki sjálfum okkur nóg frekar en önnur ríki og höfum allt á því að græða, ef svo má að orði komast, að fá hingað inn erlenda aðila. Erlendum aðilum fylgir ekki einungis fjármagn heldur oft á tíðum önnur nálgun og fjölbreyttari sýn. Til dæmis í tengslum við söluna á Íslandsbanka hef ég lagt áherslu á í mínum málflutningi að mjög mikilvægt sé að auka samkeppni á bankamarkaði en íslenskur fjármálamarkaður er, eins og við þekkjum, fákeppnismarkaður og erlend fjárfesting er eftirsóknarverð til að auka þessa samkeppni. Þar ættum við að horfa til erlends banka.

Ég vil í því samhengi aðeins koma að því, forseti, að mér finnst stjórnvöld ekki hafa sýnt nægilega fram á að það hafi virkilega verið reynt að fá hingað erlendan banka til starfa. Í umfjöllun um þetta mál í fjárlaganefnd, m.a. í samskiptum við Samkeppniseftirlitið, tók Samkeppniseftirlitið undir það að stjórnvöld hafi ekki sýnt fram á það með nægilega skýrum hætti að þau hafi virkilega reynt að fá hingað erlendan banka. Þetta er kannski smáútúrdúr en er samt engu að síður hluti af þessum erlendu fjárfestingum. Við megum ekki gleyma því að aukin samkeppni á bankamarkaði stuðlar að lægri vöxtum, lægri þjónustugjöldum og nýjungum. Það yrði einnig til að auka traust á íslenskum fjármálamarkaði.

Þá kem ég að því sem ég nefndi áðan, sem er mjög mikilvægt, þ.e. að draga úr aðgangshindrunum sem eru hér á landi. Þær snúa einnig að fjármálastarfseminni, að fá erlendan aðila inn í fjármálaumhverfi á Íslandi. Þetta frumvarp gefur tækifæri til þess að fara yfir þessa hluti. Eins og ég sagði áðan fagna ég því að breytt hafi verið upphaflegum áformum sem snúa sérstaklega að 21. gr. frumvarpsins þar sem er ákvæði sem kveður á um frest vegna flöggunarskylds aðila til að tilkynna. Þar segir að aðili sem verður flöggunarskyldur skuli senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist. Þessu hefur verið breytt. Þessir fjórir dagar voru ekki þarna inni. Nú samræmist þetta gagnsæistilskipun Evrópusambandsins, EES frá 2004, sem mælir einkum fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og um birtingu upplýsinga um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar hjá slíkum útgefendum. Markmið tilskipunarinnar, eins og kom fram hér áðan, er að samræma kröfur um skyldu útgefenda til að veita upplýsingar og stuðla með því að raunverulegum innri markaði og víðtækri vernd fyrir fjárfesta.

Ég fagna því, herra forseti, að þessu hafi verið breytt. Gleymum því ekki að það er mjög mikilvægt að við samræmum þetta vegna þess að það eru dæmi fyrir því að hér hafi erlendir aðilar þurft að sæta óþarflega íþyngjandi skyldum sem eru í gildi en verður vonandi breytt með þessu frumvarpi. Það getur að sjálfsögðu dregið úr áhuga erlendra fjárfesta á þátttöku á markaði hér á landi og að fjárfesta hér og það er mjög óheppilegt. Það eru dæmi þess að erlendir aðilar hafi þurft að greiða háar sektir vegna þess að tilkynning hafi borist of seint. Það má nefna sem dæmi að fyrir tveimur árum gerði Fjármálaeftirlitið sátt við erlendan aðila sem sendi tilkynningu í sex tilvikum, minnir mig, einum degi of seint. Sektin nam tæpum 15 millj. kr. Á síðasta ári þurfti lífeyrissjóður að greiða sekt upp á rúmar 2 millj. kr. vegna þess að tilkynning barst einum degi of seint. Þetta er að sjálfsögðu ekki góður vitnisburður fyrir okkur sem land sem sækist eftir erlendri fjárfestingu. Í báðum tilfellunum sem ég nefndi, upp á 15 og 2 milljónir, voru tilkynningarnar sendar innan þess frests sem kveðið er á um í gagnsæistilskipuninni þannig að ef regluverkið hefði verið það sama hér og innan Evrópska efnahagssvæðisins hefðu þessir aðilar ekki þurft að greiða þessar sektir. Þarna sjáum við klárlega dæmi um svona aðgangshindranir að því að við fáum hingað erlenda fjárfestingu. Ég sé engin rök fyrir því að Ísland eigi að hafa strangara regluverk en kveðið er á um í Evrópu hvað þetta varðar.

Það er mikilvægt í nefndarvinnunni sem fram undan er að menn noti líka tækifærið, herra forseti, og fari yfir það hvort það sé fleira í regluverkinu sem þurfi að laga eða samræma gagnvart regluverkinu í Evrópu sem er okkur ákaflega mikilvægt eins og ég hef rakið hér og við þekkjum og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þekkir mjög vel. En að þessu sögðu óska ég nefndinni góðs gengis við þessa vinnu og fagna því að hér hafi verið tekið tillit til mikilvægra athugasemda sem bárust í samráðsgáttina.