151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ríkið á ekki að reka banka, ríkið á ekki að standa í bankarekstri. Þetta er ein af þessum möntrum hægri manna sem maður hefur heyrt úr þessum ræðustól að undanförnu í umræðum um áform ríkisstjórnarinnar um sölu á hlut í Íslandsbanka. Það er svolítið talað eins og hér sé um að ræða fjórða lögmál Newtons.

Í þessu sambandi langar mig að víkja talinu ögn að Landsbankanum. Þessi ríkisbanki hefur starfað hér sem slíkur næstum óslitið frá árinu 1885. Hann komst í gegnum heimskreppu og tvær heimsstyrjaldir. Hann lifði af síldarbrest, haftaár, eldgos og aðrar náttúruhamfarir og fjöldagjaldþrot. Hann stóð af sér hrun Sambandsins og fleiri risafyrirtækja á landsvísu sem voru máttarstólpar í atvinnulífinu og þannig mætti lengi telja. Það var aðeins eitt sem Landsbanki Íslands þoldi ekki, það var að komast í eigu íslenskra athafnamanna. Hinir bankarnir í einkaeigu hrundu líka og þjóðarbúið lenti á gjörgæslu.

Þessa sögu kunnum við og þessa sögu þurfum við ævinlega að hafa í huga og muna. Þannig að það er ekki einhlítt, þetta fjórða lögmál Newtons um að ríkið eigi ekki að eiga og reka banka, að bankar séu ævinlega best komnir í rekstri og eigu einkaaðila. Auðvitað geta einkaaðilar verið vel til þess fallnir að inna af hendi alls konar rekstur og líka í bankastarfsemi. En svona almennt talað er bankastarfsemi of mikilvæg til þess að hún sé einungis eftirlátin þeim sem haga rekstri sínum til að hámarka arð sinn hverju sinni.