151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Sem betur fer berast oft gleðifréttir. Í gær gerði ég að umtalsefni nýsköpunarfyrirtækið GEMMAQ, sem var að gera það gott í New York og valið eitt af 50 bestu eða efnilegustu nýsköpunarfyrirtækjum þar í borg. Nú hafa borist fréttir af öðru slíku fyrirtæki, Laki Power, eins og það heitir, sem er nýsköpunarfyrirtæki stofnað árið 2015. Það var valið úr hópi 4.200 fyrirtækja og var í hópi 38 fyrirtækja sem fengu náð fyrir augum evrópsks sjóðs sem úthlutar styrkjum til verkefna hjá fyrirtækjum sem stunda nýsköpun, skapa og móta nýja markaði, búa til störf, vöxt og ný störf. Fyrirtæki þetta er búið að finna upp nýja lausn til að fylgjast með ástandi háspennulína.

Þetta geri ég að umtalsefni sérstaklega til að minna okkur enn einu sinni á gildi nýsköpunar, gildi Evrópusamvinnunnar, sem þetta fyrirtæki nýtur nú sérstaklega góðs af og á það að mikilvægt er að yfirvöld, íslensk stjórnvöld, styðji vel og myndarlega við nýsköpun í landinu. Við höfum verið að bæta okkur. Við þurfum að bæta okkur enn meira til að ná enn betri árangri. Við sjáum það á þessum fyrirtækjum og fjöldamörgum öðrum að við eigum fullt erindi og þessi fyrirtæki geta skapað mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Viðreisn hefur lagt mjög þunga áherslu á þennan málaflokk og mun gera það áfram vegna þess að í þessu felst framtíð okkar.