151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á Íslandi höfum við blessunarlega verið laus við mjög sýnilegan uppgang nýfasisma að undanförnu og kemur þar margt til. Sé hins vegar litið vestur um haf eða til Evrópu sést uppgangur nýfasismans mjög skýrt. Vandinn er sá að við erum orðin svo vön því að búa í frjálslyndum lýðræðissamfélögum á þessu svæði, hér og í nágrannalöndum okkar, að okkur kemur einhvern veginn ekki til hugar að raunin geti verið að einhver voðaverk eins og þau sem voru framin á síðustu öld og eru hvað frægust og alræmdust geti verið framin aftur. Það getur gerst, virðulegi forseti, ef við gleymum því að það er mögulegt.

Í dag lætur af störfum sem forseti Bandaríkjanna nýfasistinn og hrottinn Donald Trump. Það er mikið fagnaðarefni og þarf ekki að styðja andstæðing hans neitt sérstaklega mikið til að fagna því. Þegar litið er til þess hvernig hann komst til valda er eitt alveg sérstaklega áberandi og það er virðingarleysi fyrir staðreyndum, fyrir sannleikanum, fyrir því að munur er á því hvað er satt og hvað ósatt. Staðreyndir eru ekki viðhorf. Skoðanir eru ekki rök í eðli sínu. Ef við ætlum að verjast uppgangi nýfasismans, hvort sem það er til skemmri tíma eða lengri, verðum við að hafa hugföst þau lýðræðislegu gildi sem byggja á opinni, lýðræðislegri og upplýstri umræðu. Við megum ekki gleyma mikilvægi þess og við megum ekki láta eins og það gerist af sjálfu sér. Þegar við erum orðin fullorðin eigum við að geta gert greinarmun á staðreyndum og þvættingi. Staðan er sú að í hinum svokallaða vestræna heimi er það ekki svo skýrt.