151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi í kjölfarið á fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra sem hún svaraði í gær. Ísland hefur hvorki undirritað, fullgilt eða gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi né að uppfærðum samningi um ríkisfangsleysi. Samningarnir eru frá 1954 og uppfærslan frá 1961. Í svari dómsmálaráðherra til mín kemur fram að hlutirnir hafi farið að þokast árið 2014 þegar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fór í átak til að eyða ríkisfangsleysi á heimsvísu, fyrir 6–7 árum fór Ísland sem sé að skoða þetta betur. Árið 2016 samþykkti íslenska ríkið einnig tilmæli um að fullgilda samningana í síðustu allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hér á landi. Í júní árið 2019 sendi dómsmálaráðuneytið minnisblað til utanríkisráðuneytisins þar sem lagt er til að samningarnir verði fullgiltir. 29. september sama ár samþykkti ríkisstjórn Íslands minnisblað frá utanríkisráðherra þar sem lagt var til að Ísland gerðist aðili að samningunum. Ljúka átti fullgildingarferli í byrjun síðasta árs, en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur það tafist vegna Covid-19, sem hlýtur að teljast ansi sérstök ástæða fyrir því að undirrita ekki samninga. Stefnt er að því að Ísland verði formlega aðili að þessum samningum nú í byrjun árs.

Herra forseti. Það er gott að hlutirnir hafi byrjað að hreyfast á þessu kjörtímabili en ríkisstjórnin hefur tekið sér eitt ár og sjö mánuði til að fullgilda samningana. Þessir samningar skipta miklu máli um líf fólks og hvar það fær að búa, lifa og starfa. Man t.d. einhver hér eftir fjölskyldu sem kom hingað frá Senegal fyrir sjö árum og hefur búið og starfað hér síðan, eftir hjónunum Bassirou Ndiaye og Mahe Diouf, sem hafa á þeim sjö árum sem þau hafa búið hér reynt ítrekað að fá dvalarleyfi og óskað eftir alþjóðlegri vernd? Þau eiga tvær dætur, Mörtu, sex ára, og Maríu, þriggja ára, sem eru báðar fæddar hér á landi. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Eftir hverju er eiginlega verið að bíða? Hér þarf að fullgilda samninga svo börn á borð við Mörtu og Maríu þurfi ekki að lifa og búa við þessa óvissu.