151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ísland hefur skuldbundið sig til að kaupa ekki bóluefni utan samnings Evrópusambandsins. Sóttvarnalæknir segir að búið verði að bólusetja um 30.000 manns gegn kórónuveirunni í lok mars. Hann segir að Ísland hafi skuldbundið sig til að kaupa bóluefni samkvæmt samningum Evrópusambandsins og því sé ekki hægt að kaupa bóluefni fram hjá samningnum. Sóttvarnalæknir býst við að búið verði að bólusetja um 30.000 manns í lok mars og í næsta forgangshópi fyrir bólusetningar eru 70 ára og eldri. Í þeim hópi eru um 34.000 manns þannig að ekki verður búið að bólusetja allan þann hóp miðað við þessar upplýsingar. Ráðuneytið gerir samninga við Lyfjastofnun Evrópu. Samkvæmt þeim er Ísland skuldbundið til að kaupa bóluefni í samræmi við þá samninga. Það er jafnframt skuldbundið til að kaupa ekki bóluefni fram hjá þeim samningum. Það er engin vinna í gangi til að kaupa bóluefni fram hjá samningnum, segir sóttvarnalæknir.

Hæstv. forseti. Ég spyr: Hvers lags samningur er þetta? Þetta er mjög íþyngjandi í þennan enda. Svo les maður og heyrir í fréttum að Þjóðverjar, sem eru jú í Mekka Evrópusambandsins, séu að semja um bóluefni á annan hátt líka. Þá spyr ég: Hvernig stendur á því að við getum ekki gert það eins og þeir? Eru stjórnvöld að hugsa um þau mál yfirleitt? Er hægt að fá upplýsingar um það opinberlega? Ég held að þjóðin geri kröfu um að fá upplýsingar um það ef eitthvað annað er í gangi en það sem hér segir. Þetta er mikið heilsufarsmál og það kostar líka þjóðina 1 milljarð á dag að málin séu eins og þau eru í dag.