151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, á þskj. 418, 344. mál. Frumvarpið er fyrsta skrefið í endurskoðun á fyrirkomulagi neytendamála sem komið var á með lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005. Með frumvarpinu er stefnt að því að færa verkefni Neytendastofu nær kjarnastarfsemi í öðrum stofnunum og þangað sem faglegur skyldleiki og samlegð er meiri.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsluverkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði verði færð frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og stjórnsýsluverkefni á sviði rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar. Markmið breytinganna er að auka skilvirkni og hagkvæmni eftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda og færa verkefni til þeirra aðila þar sem er mest samlegð til að sinna þeim. Heppilegra er að fagleg skylduverkefni séu á sömu hendi, þ.e. að lögbundin verkefni sem hafa sömu markmið og/eða sömu eða svipaða aðferðafræði séu hjá sama stjórnvaldinu.

Neytendastofa sinnir í dag mörgum og ólíkum stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005. Frá stofnun hafa hins vegar nokkrar breytingar orðið á starfsemi Neytendastofu. Málefni faggildingar voru færð frá Neytendastofu til faggildingarsviðs Einkaleyfastofu. Stuttu eftir stofnun Neytendastofu voru málefni rafmagnsöryggis bygginga og eftirlit með rafföngum færð frá Neytendastofu í tveimur skrefum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar árið 2009 og 2014. Árið 2013 var svo embætti talsmanns neytenda lagt niður. Á síðari árum hefur Neytendastofu einnig verið falin framkvæmd ýmissa verkefna á málefnasviðum annarra ráðherra og má þar helst nefna eftirlit með skoteldum og rafrettum.

Stjórnsýsluverkefni á sviði mælifræði, neytendaréttar og vöruöryggis hafa ólíkan efnisrétt, markmið og aðferðafræði. Neytendamál eru þegar dreifð víða um stjórnkerfið og fjöldi ríkisstofnana á ólíkum málefnasviðum sinnir eftirliti og stjórnsýsluverkefnum sem eru til hagsbóta fyrir neytendur með einum eða öðrum hætti. Neytendastofa sinnir að stórum hluta öðrum þáttum en þeim sem snúa með beinum hætti að neytendavernd. Verkefni á sviði mælifræði teljast þannig almennt ekki til hefðbundinna neytendamála þótt sum þeirra geti varðað hagsmuni neytenda með óbeinum hætti. Eftirlit Neytendastofu með öryggi vöru varðar neytendur heldur ekki með beinni hætti en ýmislegt annað eftirlit með öryggi vöru sem sinnt er af nokkrum fjölda stofnana.

Með breytingunum er stefnt að því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði miðlægt stjórnvald á sviði vöruöryggismála. Með því er unnt að ná verkefnamiðaðri samlegð og auka sérþekkingu og bolmagn til að takast á við flókin verkefni. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að stofnunin sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar. Unnið er að endurskipulagningu þeirra verkefna í ráðuneytinu með hugsanlegri tilfærslu þeirra annað árið 2021, á þessu ári. Auk frumvarpsins er unnið að því í ráðuneytinu að einfalda regluverk á sviði mælifræði í því skyni að færa verkefni í auknum mæli til faggiltra skoðunarstofa á markaði.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að fjárhagsáhrif muni rúmast innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun 2021–2025 þar sem fyrst og fremst er um að ræða tilflutning verkefna milli ríkisaðila.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.