151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. atvinnumála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur hér fram frumvarp sem lýtur að neytendum. Raunar eru þau tvö. Þetta frumvarp lýtur að breytingum á lögum um Neytendastofu og fleiri atriðum í stjórnsýslu neytendamála. Neytendamál hafa ekki verið ofarlega á baugi í íslenskum stjórnmálum í langan tíma og ekki heldur hjá þessari ríkisstjórn. Það er vel að hugað sé að þeim. Málaflokkurinn hefur verið hornreka innan þess ráðuneytis sem fer með umsjón með neytendamálum á Íslandi. Neytandinn er skilgreindur sem sá sem á í viðskiptum í daglegu lífi með tilliti til framfærslu sinnar og sem þátttakandi í samfélaginu. Það snýr ekki bara að neyslu og næringarlegum þáttum heldur líka að þjónustu.

Ég leyfi mér að varpa því fram hvort ráðherra telji ekki að það skorti heildstæða stefnu og að þessum málaflokki sé sinnt með brotgjörnum hætti þvert á stjórnsýsluna. Það er fátt mikilvægara í markaðsvæddu hagkerfi en að þessi þáttur sé mjög virkur. Telur ráðherra að úr þessu sé bætt með fullnægjandi hætti með þessu frumvarpi og hugsanlega þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir? Hvar liggja veikleikarnir og úr hverju þarf að bæta?