151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Neytendasamtökin geti verið enn öflugri aðili til að efla neytendavernd og neytendavitund og í raun að efla hvern og einn neytanda í ákvarðanatöku sinni og meðvitund um hvaða máli það skiptir að vera neytandi og hvað hann getur gert sem slíkur, og auðvitað eru samtökin aðhald á þá sem selja vöru og þjónustu. Hvað varðar framtíðarhlutverk og stöðu Neytendastofu þá er það til almennrar skoðunar. Við erum að vinna að því í góðu samráði við haghafa. Markmiðið með þessu öllu er að bæta stjórnsýslu neytendamála. Það verður auðvitað gert í skrefum og þetta er eitt af þeim.

Ég nefndi áðan að við hefðum verið að efla Neytendasamtökin með nýjum samningi, styðja þau með frekari hætti til að þau geti eflt starfsemi sína. Það þarf að skoða neytendamál í stærra samhengi. Við erum líka að efla sjálfstæðar úrskurðarnefndir með rétt neytenda að leiðarljósi og það er það mál sem ég mæli fyrir á eftir. Það skiptir öllu máli að við horfum á þetta í heildarsamhengi. Við leggjum hér til að færa verkefni á annan stað þar sem er töluverð samlegð, bæði fagleg og með tilliti til þeirra markmiða sem fylgja þeim verkefnum, og svo skoðum við nánar aðra þætti með það að markmiði að efla neytendavernd í landinu. Neytendasamtökin hafa þar hlutverki að gegna, sem og skýrt og skilvirkt regluverk. Tryggt eftirlit með hinum ýmsu þáttum þarf að vera til staðar. Þrátt fyrir að ég geti alveg tekið undir með hv. þingmanni, (Forseti hringir.) um að neytendamál séu ekki alltaf í brennidepli í almennri umræðu höfum við verið að stíga mjög jákvæð skref á þessu kjörtímabili.