151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu. Ræðan og listi þar sem upplistuð eru verkefni Neytendastofu sýnir okkur svo ekki sé um villst að þessi stofnun hefur engan tilvistargrunn. Það er búið að vera að höggva af henni verkefni núna í líklega fimm til tíu ár, eitt og eitt í einu og þetta er líklega eitt langvinnasta dauðastríð einnar stofnunar sem maður hefur horft upp á mjög lengi. Ég bara velti því fyrir mér, það hlýtur að vera rosalega góður vinnumórall í þessari stofnun. En ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar þessi skref eru stigin, hvers vegna var ekki gengið hreint til verks strax núna og Neytendastofa lögð niður og neytendavernd og neytendamál sett einhvers staðar, t.d. inn í Samkeppniseftirlitið sem Neytendastofa var nú höggvin frá hér í denn? Hvers vegna í ósköpunum setja menn ekki fram heildstæða stefnu í þessum málum og vinna þetta alveg til enda?

Þetta er svo dæmigert mál, herra forseti, um það hvernig þessari ríkisstjórn tekst að flækja einföldustu mál, að reka á undan sér mál í einhverjum bútasaumi eins og hér er gert. Það er þyngra en tárum taki því að svona ákvörðun ætti að geta gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig með sæmilegum undirbúningi. En nei, menn fara enn í það að höggva verkefni af og eftir stendur tíu liða verkefnalisti sem er innbyrðis ósamstæður og tryggir ekki neytendavernd með nokkrum hætti.

Ég verð að spyrja ráðherrann hvort það sé ekki vilji ríkisstjórnarinnar og ráðherrans sjálfs að taka til hendinni og hefja neytendavernd á hærri stall heldur en þetta metnaðarlausa frumvarp gerir ráð fyrir.