151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:50]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Verkefni hafa verið tekin af Neytendastofu og færð annað en stofnunin hefur líka fengið ný verkefni undanfarin ár eins og ég kom inn á í minni ræðu. Það er ekki verið að leggja niður Neytendastofu með þessu frumvarpi. Það er einmitt verið að taka þetta skref sem er faglega undirbúið og rök færð fyrir samlegðaráhrifum með þeim nýja stað þangað sem verkefnin fara. Ég fór yfir það áðan að í ráðuneytinu er verið að endurskoða verkefni neytendaréttarsviðs sem sinnir eftirliti með hinum eiginlega neytendarétti. Við höfum fengið utanaðkomandi ráðgjafa í það verkefni með okkur til að gera ákveðna sviðsmyndagreiningu, einmitt til að vanda til verka og skrifa það út og vera með heildarsýn á það hvernig þessum málum er best fyrir komið. Við höfum litið til þess hvernig verkefnin hafa þróast undanfarin ár og hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar. Við erum hér með mjög litla stjórnsýslu og fámenna og þess vegna þurfum við stundum að hugsa hlutina með aðeins öðrum hætti heldur en í margfalt fjölmennari ríkjum. Við erum sömuleiðis að vinna að því, eins og ég fór yfir í ræðu minni, varðandi mælifræðisviðið með það að markmiði að það verði bara farið út í faggilda starfsemi út á markaði, enda ekki bráðnauðsynlegt að ríkisvaldið sjálft vinni þau verkefni heldur geri kröfu um að þeim sé sinnt. Slíkt verkefni ætti ekki heima í svona frumvarpi en það erum við að vinna til hliðar við að leggja frumvarpið fram. Þannig að í mínum huga erum við einmitt að vanda okkur, horfa á þetta í einhverju heildarsamhengi og taka þetta í skrefum með það að markmiði að efla neytendavernd á Íslandi og styrkja umhverfi neytendaverndar heilt yfir. Liður í því er til að mynda nýr samningur við Neytendasamtökin til að gera þeim betur kleift að sinna starfsemi sinni sem er mjög mikilvæg fyrir neytendur á Íslandi.