151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hefði verið trúverðug ef öll verkefni neytendamála væru í Neytendastofu en svo er einmitt ekki. Neytendaeftirlit sem varðar neytendavernd og neytendarétt er mjög víða í stjórnkerfinu. Það er í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Lyfjastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun og mjög víða annars staðar. Við erum einmitt að tryggja að regluverkið sé til staðar, að það sé skýrt og eftirlitið sé fullnægjandi. Í mínum huga berum við einmitt virðingu fyrir málaflokknum og verkefninu með því að taka það í þeim skrefum samhliða vinnu okkar við þetta.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega fánann og af hverju hann eigi ekki að vera í dómsmálaráðuneytinu. Ég veit ekki betur en að flokkur hv. þingmanns geri mikið úr til að mynda innlendri matvælaframleiðslu og þetta eftirlit snýr einmitt að því að neytendur geti gengið að því vísu að þegar íslenski fáninn er notaður í merkingum á alls konar matvælum, séu matvælin raunverulega íslensk. Ég er ekki viss um að slíkt eftirlit ætti betur heima hjá dómsmálaráðuneytinu heldur er eftirlitið til þess að tryggja ákveðnar upprunamerkingar og gagnsæi og upplýsingar fyrir neytendur til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Það getur vel verið að ég myndi vilja vera með frjálslyndari reglur varðandi fánanotkun heldur en einhverjir aðrir hér í þessum sal, en þetta er ástæðan fyrir því að eftirlit er til staðar, það eru reglur í löggjöf um það hvernig fyrirtækjum er heimilt að nýta fánamerkingar þegar þau merkja vörur sínar íslenskar. Þá gerum við kröfu um að þær séu íslenskar.