151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég þekki þessa umræðu aðeins af sveitarfélaganna hálfu og veit af þeim áherslum sem hafa verið uppi. Við reyndum að mæta þessu með einhverjum hætti, það kann að vera að við höfum ekki gengið nægilega langt í þeim efnum. En eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, og ég gat um í framsögu minni, eru leiðbeinandi reglur í mótun og vinnslu í ráðuneytinu. Við munum að sjálfsögðu gera það í samstarfi við sveitarfélögin og kynna og kalla eftir athugasemdum við það regluverk þegar það verður tilbúið.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að gera þetta vegna þess, eins og sömuleiðis kemur fram í greinargerð, að ræktanlegt land, ef við getum sagt sem svo, er af skornum skammti. Það er til muna minna en almennt er álitið og því þarf leiðbeiningar varðandi skipulagsgerðina, hvaða áherslur stjórnvöld hafa hverju sinni varðandi það hreinlega að varðveita það ræktarland sem er til reiðu í samfélaginu.

Vandinn í þessu máli, þegar þeirri spurningu er beint til landbúnaðarráðherra í þessu tilviki, er að skipulagsvaldið er annars staðar. Þetta er ákvörðun sem þarf þá að taka í samráði við rétt yfirvöld yfir skipulaginu og í góðu samstarfi við sveitarfélögin. Ég held að þetta geti orðið til gagns fyrir alla aðila, það er ekki meiningin að leggja fjárhagslegar byrðar á sveitarfélögin. Það veltur örugglega töluvert á því hvernig þessar leiðbeiningar koma til með að líta út með hvaða hætti þetta leggst á sveitarfélög. Ef flokkunin er unnin af ríkinu og gerð heildstætt yfir landið ætti það ekki að vera mjög íþyngjandi vinna að taka tillit til þeirra leiðbeininga við skipulagsgerðina. Við verðum engu að síður að gæta þess að skipulagsvaldið heima í héraði er sveitarfélagsins og því ber að fara að þeim fyrirmælum sem stjórnvöld hafa sett. En í þessum efnum hefur ekki verið tekin þessi ákvörðun sem hv. þingmaður var að spyrjast fyrir um.