151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki kappsmaður um það af hálfu ríkisins að leggja aukinn kostnað á einn né neinn, hvorki sveitarfélög, einstaklinga né fyrirtæki. Þetta eru einfaldlega verkefni sem þarf að vinna. Við vinnslu þessa máls var haft ágætissamráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og tók það heils hugar undir þau atriði í frumvarpinu sem snúa að því hreinlega að afnema skipulagsákvarðanir sem þóttu íþyngjandi fyrir sveitarfélögin vegna jarðalaganna. Það eru því bæði plúsar og mínusar við verklagið og við verðum að vera manneskjur til að horfa heildstætt á málið og leggja mat á þann kostnaðarauka sem kann að leiða af lagasetningunni og sömuleiðis þann kostnaðarlétti sem kann að leiða af henni. Sá vettvangur sem tekst á um slík mál er hin svokallaða Jónsmessunefnd, ef þau mál eru uppi. En bara svo það sé sagt hér þá stendur vilji minn ekki til þess að leggja aukinn kostnað á sveitarfélögin heldur miklu frekar að einfalda alla verkferla, gera hlutina skýrari með það fyrir augum að ábati sveitarfélaga, ég tala nú ekki um landbúnaðarins í landinu, og síðan ríkisvaldsins, eðlilega, verði sem mestur og þá umfram það kerfi og það verklag sem við höfum um þessi mál í dag. Það er megintilgangurinn með þessu.