151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þekki fyrirvarann frá hv. þingmanni varðandi skógræktina. Ég virði þau sjónarmið og hvet hv. þingmann til að koma því til leiðar að nefndin taki það til umræðu og taki afstöðu til þeirra sjónarmiða. Varðandi það hvort nefndin geti fengið þessa kynningu þá er það bara sjálfsagður hlutur. Það situr einhvern veginn í minni mínu að við höfum kynnt þessar reglur, sett þær fram og kallað eftir athugasemdum við þær. Við höfum kynnt þær fyrir ýmsum aðilum sömuleiðis og mér finnst bara sjálfsagður hlutur, ef eftir því er kallað, að veita allar þær upplýsingar um þau drög sem þarna eru í vinnslu. Það gerir ekki neitt annað en að gera málinu gagn og því meginmarkmiði sem reglunum er ætlað að styðja, þ.e. að við gerum það besta úr því ræktarlandi sem við eigum hér, Íslendingar, þessum 600.000 hekturum sem við höfum til ráðstöfunar, samkvæmt grófu mati.