151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir það frumvarp sem hann leggur hér fram. Ég held að það séu bara góðar fréttir í þessu frumvarpi sem verður væntanlega tekið fyrir í hv. atvinnuveganefnd þegar það hefur verið flutt og rætt. Mér finnast margar mjög góðar breytingar hafa komið fram.

Eftir að hafa verið í þessum málum í nefndinni, m.a. með formanni hennar frá því 2013, þar sem tekist hefur að gera ýmsar jákvæðar breytingar á þessu kerfi, sérstaklega í strandveiðunum, langar mig aðeins að spyrja ráðherrann. Fram kemur að á hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kíló af þorskígildum í land á hverjum degi. Eins og við þekkjum til sjós er stundum erfitt að vera með það upp á kíló og komið hefur í ljós að smábátar sem landa beint á markað hafa stundum fengið á sig sektir vegna þessa, en það ber minna á því hjá þeim sem eru í beinum viðskiptum. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sjái fyrir sér að við myndum hafa einhvern sveigjanleika í þessu sem hægt væri að gera upp í hverri viku.

Mig langar líka að biðja ráðherrann um að útskýra fyrir okkur hvernig hann vill nýta heimildir sem detta upp fyrir, nást ekki inn í strandveiðikerfið, eins og gerst hefur á undanförnum árum.

Svo langar mig einnig að spyrja ráðherrann hvort hann hafi eitthvað velt því fyrir sér sem komið hefur fram og við höfum fengið fyrirspurnir um, varðandi breytilegar tímasetningar á veiðisvæðum í strandveiðum, sem stundum hafa verið kallaðar svo. En breytingar á strandveiðum undanfarin ár hafa reyndar tekist afar vel.