151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Fátt kemur á óvart í frasapólitík Samfylkingarinnar þegar um bein úr sjó er að ræða, þegar hér er fullyrt að þetta séu ekki byltingarkenndar breytingar og ekki við því að búast og Samfylkingin vilji hafa þetta allt saman öðruvísi. Vill Samfylkingin bjóða upp byggðapottana? Telur hv. þingmaður að það verði meiri byggðafesta við það að bjóða upp 5,3% allra aflaheimilda landsins? Eða hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður um það, hverjar eru þær góðu breytingar sem Samfylkingin vill leggja fram í þessum efnum? Á sama tíma og hann talar um að þetta sé allt við það sama og ekki við öðru að búast úr þeim ranni þá fer hann að tala um þær nýjungar sem í þessu máli felast, sem eru vissulega þó nokkuð margar. Við erum að gera töluvert miklar breytingar í þessu, t.d. ein sú breyting sem vissulega er umdeilanleg, að festa hlutfall í pottinum í lög þannig að þingið ákveði það en ekki ráðherrann. Færa sem sagt valdið úr höndum ráðherrans til þingsins sem lögfestir þá skiptingu sem oft hefur verið mjög umdeild og illskiljanleg, svo maður orði það nú bara hreinlega.

Það sem hv. þingmaður nefndi hins vegar varðandi samstarfið og tilraunaverkefni með sveitarfélögunum finnst mér töluvert spennandi. Ástæðan fyrir því að þetta er sett til skamms tíma er sú að við erum að þreifa okkur inn í eitthvað og reyna að koma af stað verkefnum sem kallað hefur verið eftir, sérstaklega frá svæðum sem eiga í vök að verjast byggðalega séð sem vilja fá tækifæri til að geta nýtt þær heimildir sem þarna hafa komið út með öðrum hætti en gert hefur verið. Það kann vel að vera að reynslan af þessu verði góð og þá er sjálfsagt mál og kemur örugglega til umræðu að festa slíkt verklag til lengri tíma. En á þessari stundu held ég að við eigum að fara okkur hægt vegna þess að við erum að þróa okkur inn í nýja byltingarkennda veröld þó svo að hv. þingmaður komi ekki auga á það (Forseti hringir.) í öðru orðinu en viðurkenni í hinu. Ég er alveg sannfærður um að við erum sammála um þetta atriði.