151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bað um svar við einfaldri spurningu frá hæstv. ráðherra en ekki útúrsnúninga og skæting gagnvart stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Vitaskuld kemur ekki til álita að bjóða upp byggðakvóta. Fyrr má nú aldeilis vera að menn hreyfi sig af þvílíkri hægð og hógværð eins og hér um ræðir varðandi þessi mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi þessa fjölbreytni og tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi sem stefnt er að. Í upphaflegum drögum sem voru lögð fyrir í samráðsgátt var gert ráð fyrir hlutfallinu sem lýtur að línuívilnun, sem er eitt óþjálasta orð í íslensku, 10,92%, en endanleg útkoma var 8,5. Ef ráðherra vildi skýra það.

Varðandi aðra ágæta breytingu, þessar breytingar eru í níu liðum og ég vil ekki gera lítið úr því, er ákvæði til bráðabirgða um skel- og rækjubæturnar sem komu til líklega 2004. Þetta er ákvæði til bráðabirgða. Hvað þýðir það? Annað er að úthlutað verður aflahlutdeild sem nemur samtals 1.482 þorskígildistonnum. Hvernig er það fundið? (Forseti hringir.) Eru þetta taldar vera fullar bætur til þeirra sem í hlut eiga, þ.e. þeirra skel- og rækjubáta sem í hlut eiga?