151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn útúrsnúningur, hv. þingmaður, þótt maður svari gagnrýni sem kemur fram á eitthvað sem maður er ekki sammála. Við erum ekki á sama máli og það er ekkert að því. Það var alls ekki meining mín að snúa út úr orðum hv. þingmanns, langur vegur frá. Ég svara bara fyrir mig þegar mér finnst bera á því að menn yfirbjóði með einhverjum frösum sem eiga sér ekki stoð. Varðandi línuívilnunina og skelbæturnar þá hangir þetta að nokkru leyti saman. Ég man ekki formúluna fyrir útreikningum á rækju- og skelbótum upp á 1.482 þorskígildistonn. Ástæðan fyrir því að þetta er til bráðabirgða er að vegna þess að eins og frumvarpið er sett upp er þetta hugsað sem einskiptisaðgerð. Þess vegna er þetta gert til bráðabirgða. Ég geri mér það alveg ljóst að þarna er um að ræða mjög umdeildan þátt í frumvarpinu og mér finnst sjálfsagt að nefndin fari mjög vandlega yfir það. Vegna þess hvernig forsagan er þá sá ráðuneytið ekki nokkurn möguleika á öðru en að leggja málið fram með þeim hætti sem þarna greinir. Ég tel að ef fallist er á þessa tillögu sem þarna er sett fram sé það gert upp af bæði heiðarleika og hreinskilni.